Píratar ræði málin sín á milli

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, borgarfulltrúi Pírata.
Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, borgarfulltrúi Pírata. Haraldur Jónasson/Hari

„Það er erfitt að gefa greinargóð svör um þessi mál akkúrat á þessari stundu. Það er kannski ekki alveg tímabært. Okkar samstarf hefur alltaf verið mjög gott og okkur þykir mjög leitt að sjá þessa tilkynningu. Ég reikna með að framhaldið skýrist á næstu dögum,“ segir Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, borgarfulltrúi Pírata, innt eftir viðbrögðum við tilkynningu Rannveigar Ernudóttur, varaborgarfulltrúa Pírata á Facebook í gær.

Í tilkynningunni sagði hún hún þröngan hóp­ inn­an Pírata ekki hafa linnt og beitt öll­um brögðum til að hrekja fólk úr flokkn­um. Í sam­tali við mbl.is sagði hún að varaþingmaður væri hluti af þess­um hópi. Rannveig hefur sent skrif­stofu borg­ar­stjórn­ar er­indi þar sem hún vildi fá að vita um af­leiðing­ar þess ef hún sem kjör­inn full­trúi segði sig úr Pír­öt­um enda hefði hún enn mik­inn áhuga á að starfa fyr­ir borg­ina.

Atli Þór Fanndal, blaðamaður og pólitískur ráðgjafi Pírata, sagði sig úr flokknum í gær vegna ósættisins og birti um málið pistil á Faceboook. Halldór Auðar Svansson, fyrrverandi borgarfulltrúi Pírata, sagði í samtali við Fréttablaðið að langvarandi uppsöfnuð spenna og pirringu væru ástæðan fyrir úrsögnunum úr flokknum.

Málin skaðleg fyrir flokksstarfið

Spurð hvernig borgarstjórnarflokkurinn muni bregðast við tilkynningunni segir Sigurborg Ósk að málin þurfi að ræða, en málið varði þó innra starf flokksins og umræðan þurfi að því eiga sér stað meðal félagsmanna almennt.

Á mánudag hafa Píratar boðað fund þar sem kynnt verða drög að breytingum á lögum Pírata er varða bann við mismunun, einelti, áreitni, þar á meðal kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi í flokksstarfinu. Spurð hvort málin verði tekin fyrir á fundinum segir Sigurborg Ósk að það sé líklegt, en þó verði málin rædd á fleiri stöðum.

„Við munum ræða þetta okkar á milli, við viljum öll gera það. Stefnan er að gera það á mánudaginn. Þessi mál verða auðvitað rædd á fundinum, en á öðrum stöðum líka,“ segir hún.

Eru þessi mál ekki skaðleg fyrir flokkinn og stjórnmálastarfið?

„Jú, það er greinilegt að það eru í gangi hlutir sem að við þurfum að ávarpa, það er engin spurning. Ég er samt bjartsýn á starf flokksins og mjög jákvæð um framtíðina,“ bætir hún við.

Spurð hvort borgarfulltrúar hafi rætt ósættið í röðum Pírata sín á milli segir Sigurborg Ósk að óformleg samtöl hafi átt sér stað, ástandið sé ekki þannig að fólk talist ekki við.

„En þetta er mál sem við þurfum að ræða með félagsmönnum. Þetta eru mál sem snúa að innra starfi flokksins og tengjast ekki beint borgarstjórnar- eða þingflokknum. Þetta er innra starfið fyrst og fremst,“ segir hún.

mbl.is