Kafarar kanni ástand skipsins í birtingu

Landgöngubrú var útbúin í morgun svo kanna mætti aðstæður í …
Landgöngubrú var útbúin í morgun svo kanna mætti aðstæður í flutningaskipinu Fjordvik sem strandað hefur í Helguvík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dæling olíu úr sementsflutningaskipinu Fjordvik hefur gengið hægar í dag en vonað var og ákveðið hefur verið að hætta aðgerðum í kvöld. Aðgerðin hófst síðdegis og var vonast til þess að hægt yrði að dæla úr því um 80 tonnum. Í skipinu voru 104 tonn af gasolíu þegar það strandaði aðfaranótt laugardags.

„Þetta hefur gengið hægar en vonast var til, þannig í nótt verður reynt að útvega öflugri tæki og tól og hefja aðgerðir aftur í birtingu í fyrramálið. Það eru alls konar eðlisfræðilegar ástæður fyrir því að þetta hefur gengið hægt, t.d. er hæðarmunur á skipinu og bryggjunni,“ segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar.

Landhelgisgæslan hefur staðið vaktina í Helguvík og er til taks …
Landhelgisgæslan hefur staðið vaktina í Helguvík og er til taks ef illa fer. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hann segir að nú fari hluti viðbragðsteymisins heim að hvíla sig enda hafi margir unnið hörðum höndum frá því í morgun. Aðrir munu verja nóttinni í að útvega betri tæki til dælingar. Spurður hve miklu magni hafi verið dælt í dag segir Kjartan að það hafi verið minni háttar.

Nær öruggt að skipið fari ekki í Helguvíkurhöfn

Hafnaryfirvöld hafa lýst áhyggjum af því að skipið gæti sokkið verði reynt að draga það út og vilja því ekki að reynt verði að koma því inn í Helguvíkurhöfn. Höfnin sé enda mikilvæg uppskipunarhöfn fyrir eldsneyti, þ.á m. flugvélaeldsneyti. Því yrði flugsamgöngum stefnt í hættu ef það yrði reynt. Rætt hefur verið um að reyna að koma Fjordvik í Keflavíkurhöfn, en Kjartan Már segir að ekkert hafi verið endanlega ákveðið í þeim efnum.

„Það er ekki búið að ákveða þetta. Fyrst þarf að meta hvort skipið þoli einhvern flutning. Ég held ég geti alla vega fullyrt að það verði ekki reynt að fara með skipið inn í Helguvíkurhöfn,“ segir Kjartan Már.

Erfitt að meta ástand skipsins

Erfitt hefur reynst að meta ástand skipsins, m.a. vegna veðurs og sjólags við Helguvíkurhöfn. Vitað er að gat er á skipsskrokknum og vatn hefur safnast fyrir í lestar- og vélarrúmi. Ekki er þó vitað um umfang skemmdanna, t.d. hvort um er að ræða mörg göt eða eitt stærra. Því er óvíst hvort skipið megi draga til hafnar.

Dæling olíu úr Fjordvik hefur ekki gengið að óskum, hægar …
Dæling olíu úr Fjordvik hefur ekki gengið að óskum, hægar en vonast var til. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Meiningin er að ef veður verður jafngott í fyrramálið og spár segi til um, að kafarar fari að skipinu í fyrramálið, undir það, og skoði ástand þess að utanverðu,“ segir Kjartan Már, en ekki hefur tekist að skoða skipið nægilega vel að innanverðu heldur í ljósi þess að þar eru 1.600 tonn af sementi. Sérfræðingar frá hollenska björgunarfyrirtækinu Ardent fóru um borð í morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert