Ísland með mesta losun á einstakling frá hagkerfinu

Flugvélar á Keflavíkurflugvelli. Á Íslandi kemur losun koltvísýrings að stærstum …
Flugvélar á Keflavíkurflugvelli. Á Íslandi kemur losun koltvísýrings að stærstum hluta frá flugi og framleiðslu málma. Mynd úr safni.

Ísland er það ríki innan ESB og EFTA svæðisins sem var með mesta losun koltvísýrings (CO2) frá hagkerfi á einstakling árið 2016. Er Ísland nú komið á topp listans eftir að hafa verið í 3-4 sæti frá 2008, en losun hefur aukist vegna aukins flugreksturs og skipaflutninga frá árinu 2012. Þetta kemur fram í frétt á vef Hagstofunnar.

Önnur lönd þar sem losun koltvísýrings á einstakling hefur verið há eru Lúxemborg, Danmörk og Eistland og hefur koltvísýringslosunin í þessum ríkjum verið á bilinu 13 til 19 tonn á einstakling. Almennt hefur losun á einstakling lækkað innan ESB og eru flest lönd komin niður í um 9 tonn á einstakling, en hjá einstaka löndum er gildið lægra.

Í þeim ríkjum sem eru ofarlega á listanum eru geirar innan hagkerfisins sem eru með afgerandi mesta losun samanborið við aðra geira. Þannig er losunin til að mynda að stærstum hlut vegna flugreksturs í Lúxemborg og í Danmörku er losunin að stærstum hlut vegna sjóflutnings. Í Eistlandi kemur eingöngu um 15% orkuframleiðslunnar frá endurnýjanlegum auðlindum og er orkugeirinn því með afgerandi hlutfall losunar. Eistar mæta hins vegar um 93% af eigin orkuþörf með innlendri framleiðslu sem er hæsta hlutfall innan ESB.

Hefur farið vaxandi frá 2016

Á Íslandi kemur losunin að stærstum hluta frá flugi og framleiðslu málma, en losun frá málmframleiðslu kemur til vegna notkunar kola í rafskautum. Segir í fréttinni að gera megi ráð fyrir að flug og framleiðsla málma verði áfram með ráðandi hlutfall losunar á Íslandi árin 2017 og 2018 þar sem flugrekstur hefur vaxið áfram undanfarin ár. Koltvísýringslosun frá hagkerfinu á einstakling hafi því farið vaxandi frá árinu 2016. 

Hagstofan segir þróun í losun frá hagkerfi Íslands á einstakling hafa verið á skjön við það sem gerst hefur á hinum Norðurlöndunum. Danir hafa náð mestum árangri í að draga úr losun, en losun á einstakling þar í landi náði hámarki árið 2006. Svíþjóð hefur sýnt afgerandi lægsta losun frá sínu hagkerfi og er landið í 25. sæti innan ESB+EFTA svæðisins, en 32 lönd skila AEA losunartölum.

Þegar losun koltvísýrings frá heimilum á hvern einstakling á Íslandi er skoðuð sést hins vegar að hún er sambærileg við meðal losun frá heimilum innan ESB. Þar er Ísland í níunda til ellefta sæti, en sú losun koltvísýrings kemur til vegna notkunar einkabíla og eldsneytis til hitunar eða eldunar.

Hjá heimilum í löndunum sem eru í sex efstu sætum á listanum fer hitun fram með bruna á gasi í húsakynnum, sem þýðir að losun reiknast inn í rekstur heimilanna. Á síðustu árum hefur hitun hins vegar færs úr heimakeyrðri kyndingu yfir í miðlægar orkustöðvar, sem þýðir að koltvísýringsfótsporið færist af heimilum yfir á losunarbókhald orkuveitna.

Þróun innan Evrópu er almennt í átt að lægri losun, þó svo að ríkjunum gangi misvel og gæti hún skýrst að hluta af endurnýjun bílaflotans í Evrópu.

Losun á hvern einstakling frá íslenskum heimilum hefur þá verið hærri en hjá hinum Norðurlöndunum frá árinu 2008. Hæst náði gildið 1,96 tonni á einstakling árið 2007, en lækkaði um 19% og var 1,64 tonn árið 2014. Danir hafa dregið mest úr losun frá heimilum eða um 0,33 tonnum á einstakling frá 2008.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert