Bændur fá bætur vegna skýstróka

Skýstrókarnir ollu miklu tjóni á bænum Norðurhjáleigu.
Skýstrókarnir ollu miklu tjóni á bænum Norðurhjáleigu. Ljósmynd/Sæunn Káradóttir

Tryggingafélagið VÍS hefur samþykkt að greiða bændum bætur vegna tjóns sem þeir urðu fyrir í sumar þegar skýstrókar gengu yfir bæinn Norðurhjáleigu í Álftaveri í Skaftárhreppi 24. ágúst, en áður hafði félagið hafnað bótaskyldu.

Fram kemur á fréttavef Ríkisútvarpsins að samkvæmt bráðabirgðamati nemi tjónið tæpum átta milljónum króna, en talsvert tón varð. Þannig skemmdust hús mikið, þök losnuðu af sjö húsum og jeppi endaði á hvolfi ofan í skurði. 

VÍS lýsti því yfir í upphafi að félagið myndi ekki bæta tjónið þar sem bændurnir væru ekki með óveðurstryggingu. Haft er eftir Gísla Tryggvasyni, lögmanni bændanna, að ánægjulegt sé að tryggingafélagið hafi skipt um skoðun.

Spurður hvað hafi orðið til þess segir Gísli að VÍS hafi verið bent á að félagið hafi hugsanlega gert ákveðin mistök í flutningi trygginga á milli eigenda að búinu. Þeir hafi fallist á það og ætli að senda matsmenn til að meta tjónið.

Haft er eftir Sæunni Káradóttur, bónda í Norðurhjálegu, að þetta séu gleðitíðindi. Gott sé að einhver lausn sé í sjónmáli. Bæturnar verði notaðar til þess aðallega að lagfæra húsin á bænum sem orðið hefðu fyrir skemmdum.

Ljósmynd/Sæunn Káradóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert