„Erum algjörlega í lausu lofti“

Bæði jeppinn og kerran þeyttust út í skurð er skýstrókarnir …
Bæði jeppinn og kerran þeyttust út í skurð er skýstrókarnir fóru yfir Norðurhjáleigu. Ljósmynd/Sæunn Káradóttir

„Það hringir engin í okkur og engin hefur áhuga á að skoða þetta eða meta neitt,“ segir Sæunn Káradóttir, bóndi í Norðurhjáleigu í Álftaveri við Kúðafljót. Skýstrókar fóru yfir bæinn síðasta föstudag og ollu verulegu tjóni þótt stillt veður væri á bæjunum í kring. Stór jeppi með kerru þeytt­ist út í skurð, þak­plöt­ur fuku fleiri hundruð metra og girðing­ar lögðust á hliðina.

Vátryggingafélag þeirra hjóna bætir ekki tjónið þar sem þau voru ekki með foktryggingu og í gær funduðu Náttúruhamfaratryggingar Íslands (NTÍ) um mál Norðurhjáleigu. Fyrr í vikunni sagði Hulda Ragn­heiður Árna­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri NTÍ, í samtali við mbl.is að lagabreytingar þyrfti við svo NTÍ bætti tjónið. Fundurinn í gær virðist staðfesta það. „Þau hringdu bæði og sendu tölvupóst til okkar, en það kom s.s. ekkert nýtt fram þar,“ segir Sæunn. Lögin væru svona og ekkert hægt að gera.

Sveitarstjórn Skaftárhrepps fundaði einnig um málið í gær og fer hún fram á að almannatryggingakerfið taki til endurskoðunar skilgreiningu á því hvað telst til náttúruhamfara. Fer hún fram á að bændur Norðurhjáleigu fái tjónið bætt og ætlar að senda al­manna­trygg­ing­um og for­sæt­is­ráðherra bréf um að þörf sé á að end­ur­skoða skil­yrði fyr­ir bót­um úr NTÍ.

Ef þetta eru ekki náttúruhamfarir hvað þá?

Sæunn segir þau óneitanlega sátt við viðbrögð sveitarstjórnar og þau finni líka fyrir miklum stuðningi í sveitinni. „Allir sem maður hittir spyrja líka: „Ef þetta eru ekki náttúruhamfarir, hvað þá?“ Maður tryggir sig fyrir venjulegu roki, en þetta er bara eitthvað allt annað.“

Þök fuku af sjö húsum er skýstrókarnir fóru yfir. Skemmdir …
Þök fuku af sjö húsum er skýstrókarnir fóru yfir. Skemmdir hafa svo verið að koma í ljós á fleiri húsum. Ljósmynd/Sæunn Káradóttir

Spurð hvort þau séu farin að meta tjónið segir hún svo ekki vera. „Við erum ekkert farin að reikna út kostnað eða annað slíkt, en við erum alltaf að sjá meira og meira hvað hefur skemmst.“ Þannig hafi komið í ljós að sum hús þurfi jafnvel að rífa og skemmdir hafi leynst á húsum sem þökin fóru ekki af. „Þetta var eitthvað sem sást ekki strax,“ bætir hún við.

Þau eru ekki heldur farin að loka þeim húsum sem þau geta notað áfram, þó að haustið nálgist óðfluga. „Við þorum ekki að byrja því við vitum ekki hvort að það ætlar einhver að koma og meta þetta tjón,“ segir Sæunn. „Það hringir enginn í okkur og engin hefur áhuga á að skoða þetta eða meta neitt svoleiðis. Þannig að við erum algjörlega í lausu lofti með þetta.“

Það þurfi hins vegar að ganga frá ýmsum húsum, bæði að loka þökum eða þá rífa þau, en áður þurfi þau helst að fá staðfestingu á hvað þau megi gera.

„Okkur langar auðvitað að nýta þennan litla tíma sem við höfum í þetta, en þegar maður veit ekki hvað má rífa niður eða laga þá erum við algjörlega stopp.“

Vonast eftir svörum frá Veðurstofunni

Blaðamaður nefnir við Sæunni að hún virðist hafa tekið hamförunum af aðdáunarverðri ró. „Við erum bara þannig manneskjur að það sést ekki utan á okkur,“ segir hún. „Þetta er samt auðvitað sjokk og tekur á.“

Í leit sinni eftir aðstoð sendu þau líka tölvupóst á bjargráðasjóð og barst svar frá sjóðnum í gær. „Við fengum það svar að ef við getum sannað að þetta sé ekki eitthvað sem hægt sé að tryggja fyrir þá geti þeir tekið þetta til athugunar,“ segir Sæunn.

Næsta mál á dagskrá er því að sjá hver niðurstaða Veðurstofu Íslands verður, en sérfræðingar frá Veðurstofunni fóru í vettvangsferð að Norðurhjáleigu á þriðjudag til að átta sig á krafti og stærð skýstrókanna. „Þeir ætluðu að vera í í sambandi við okkur,“ segir Sæunn og kveður væntanlega taka tíma að skoða þetta. „Ég vona svo að þau geti bent á að þetta var ekki eitthvað venjulegt rok, heldur eitthvað allt annað.“

„Spurð hvort að hún sé bjartsýn að aðstoð fari að fást, segir hún tilfinningar sínar vera beggja blands. „Ég vona það besta, en býst kannski við því versta. Þetta er þannig mál að það veit enginn hvað hann á að gera.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert