Biðja Ingu Sæland afsökunar

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Flokks fólksins, og Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, hafa báðir beðið Ingu Sæland, formann Flokks fólksins, afsökunar á ummælum sem þeir höfðu um hana á öldurhúsi nýverið þar sem þeir sátu með fleiri þingmönnum. 

Stundin og DV hafa undir höndum upptökur af samtölum þingmanna úr tveimur flokkum, Miðflokknum og Flokki fólksins, á barnum Klaustri 20. nóvember. Auk þeirra tveggja voru Ólafur Ísleifsson, þingmaður Flokks fólksins, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Bragi Sveinsson og Anna Kolbrún Árnadóttir úr Miðflokknum á staðnum.

„Ólafur er örugglega sammála mér að Inga Sæland getur þetta ekki,“ er haft eftir Karli Gauta í Stundinni. 

Var hún af Bergþóri Ólasyni uppnefnd klikkuð kunta, samkvæmt frétt DV.

Stundin vísar í orð Bergþórs sem hann lét falla um Ingu þetta kvöld, en hann kallaði hana „húrrandi klikkaða kuntu“ þegar hann reyndi að sannfæra þingmennina Karl Gauta Hjaltason og Ólaf Ísleifsson um að yfirgefa Flokk fólksins og ganga í Miðflokkinn.

Samkvæmt Stundinni skjölluðu þingmenn Miðflokksins þá Ólaf og Karl Gauta og lögðu hart að þeim að skipta yfir í Miðflokkinn. 

„Þið verðið að átta ykkur á því að þið getið ekkert endalaust látið madame Sæland bara grilla ykkur eins og þið séuð ekki til,“ sagði Gunnar Bragi á upptökunum sem birtar eru á DV og Stundinni. 

„Við erum ekki að pressa á ykkur að koma bara inn í eitthvað,“ sagði Sigmundur Davíð. „Við gerum okkur grein fyrir því að þið eruð burðarásarnir í Flokki fólksins og fyrir vikið, áttum okkur á því [...] að ef þið komið með okkur myndum við kunna að meta það.“ 

Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Flokks fólksins
Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Flokks fólksins

Í yfirlýsingu sem Karl Gauti sendi á fjölmiðla í nótt segir:

„Ég harma ummæli sem ég lét falla á veitingastað fyrir stuttu síðan og hafa birst í nokkrum fjölmiðlum. Af því tilefni vil ég taka fram að ég er ekki á förum úr Flokki fólksins, styð stefnu flokksins og ber traust til formanns hans, Ingu Sæland. Við höfum unnið að einurð fyrir kjósendur okkar og lagt fram mörg góð mál sem við hétum því að vinna að.

Karl Gauti Hjaltason, alþingismaður“

Bergþór Ólason skrifar á Facebook í nótt:

„Í kvöld hafa verið fluttar fréttir af hittingi sex þingmanna á hótelbar í liðinni viku. Eins og fram hefur komið varð mér þar hressilega á í messunni hvað munnsöfnuð varðar, í garð manneskju sem hafði ekkert sér til sakar unnið til að verðskulda þá yfirhalningu. Þar virðist ég hafa notað orðfæri sem er mér framandi og ég veit ekki til að ég hafi áður notað.

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins.
Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins.

Ég ræddi við Ingu Sæland í kvöld og bað hana afsökunar á framgöngu minni. Um samstarfið við Flokk fólksins vil ég segja að það hefur verið með miklum ágætum síðasta árið, enda málefnalegur samhljómur um marga hluti.

Flest þekkjum við að hafa í lokuðu rými talað óvarlega, og jafnvel af ósanngirni um annað fólk, þá sérstaklega þegar öl er haft um hönd, en það breytir því ekki að svona á maður ekki að tala um fólk.“

mbl.is