Telur hlerunarbúnaði hafa verið beitt

Sigmundur segir það alvarlegt mál ef farið er að stunda …
Sigmundur segir það alvarlegt mál ef farið er að stunda hleranir á samtölum stjórnmálamanna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir það alvarlegt mál ef gerð hefur verið hljóðupptaka á einkasamtölum stjórnmálamanna og farið sé að stunda hleranir hér á landi. Vísar hann til upptöku sem fréttamiðlarnir Stundin og DV segjast hafa undir höndum og hafa unnið fréttir upp úr í kvöld, en þar á að heyrast í Sigmundi Davíð og þremur öðrum þingmönnum Miðflokksins, þeim Gunnari Braga Sveinssyni, Bergþóri Ólasyni og Önnu Kolbrúnu Árnadóttur, ásamt þeim Karli Gauta Hjaltasyni og Ólafi Ísleifssyni, þingmönnum Flokks fólksins.

Í fréttum Stundarinnar og DV er meðal annars greint frá því að þingmennirnir hafi talað mjög niðrandi um Ingu Sæland, formann Flokks fólksins og úthúðað fleiri þingkonum. Þá á líka að heyrast í Sigmundi Davíð bjóða Ólafi Ísleifssyni að ganga í Miðflokkinn og gerast þingflokksformaður flokksins.

Upptakan á að hafa verið gerð á hótelbarnum Klaustri við Kirkjutorg 20. nóvember síðastliðinn. Sigmundur Davíð segir í færslu sinni að ekki sé um annað að ræða en að brotist hafi verið inn í síma einhvers eða hlerunarbúnaði hafi verið beitt. „Hópurinn sem vísað er til sat einn úti í horni og því ekki um annað að ræða en að brotist hafi verið inn í síma einhvers þeirra sem þarna voru staddir eða beitt hlerunarbúnaði,“ skrifar hann.

„Ég man ekki eftir dæmi um slíkt í íslenskri stjórnmálasögu og aðeins einu dæmi frá Bretlandi. Það var þegar útsendarar blaðsins News of the World hleruðu símtöl stjórnmálamanna og annars þekkts fólks. Það athæfi var litið alvarlegum augum og gripið til aðgerða í samræmi við það. Ég vona að sú verði raunin á Íslandi líka. Annars eru íslensk stjórnmál og íslenskt samfélag gjörbreytt.“

Sigmundur Davíð segir öllu ægja saman í fréttum sem sagðar eru unnar upp úr upptökunum. Í sumum tilfellum sé viljandi eða óviljandi ranghermt hvað sé verið að ræða og hver segir hvað.

„Samtöl þingmanna sem sitja saman á góðri stund og grínast hver við annan eru auk þess látin hljóma eins og pólitískt plott. Samtal sem ég var sagður hafa átt við Ólaf Ísleifsson um að hann yrði þingflokksformaður Miðflokksins var unnið upp úr samræðum milli annarra manna um aðra hluti í léttum dúr og fór fram eftir að Ólafur var farinn,“ skrifar Sigmundur sem vill því ekki meina að alvara hafi verið samtölum þingmannanna.

 Uppfært klukkan 7:55

Samkvæmt frétt Stundarinnar voru þingmennirnir háværir og fóru orðaskipti þeirra fram í vitna viðurvist. Vitni sem Stundin ræddi við sagði að sér hefði blöskrað hvernig þingmennirnir töluðu og ákveðið að kveikja á hljóðritunar-appi í símanum sínum.

Sjá nánar á vef Stundarinnar

mbl.is