„Ég mæti ekkert á þennan fund“

Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Flokks fólksins, mætti í þingmannaveisluna á …
Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Flokks fólksins, mætti í þingmannaveisluna á Bessastöðum í gær. mbl.is/​Hari

Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Flokks fólksins og stjórnarmaður í flokknum, hyggst ekki mæta á stjórnarfund flokksins í dag. Á fundinum, sem hefst klukkan tvö, verður farið yfir ályktun flokksins þar sem skorað er á Ólaf Ísleifs­son og Karl Gauta að segja af sér þing­mennsku vegna ummæla sem þeir létu falla á barnum Klaustri í síðustu viku.

Karl Gauti segir í samtali við mbl.is að ekki hafi verið boðað til fundarins með lögmætum fyrirvara, sem samkvæmt flokkslögum er tveir sólarhringar. „Ég mæti ekkert á þennan fund. Ég fer fram á það að það verði löglega til fundar boðað. Minn almannaréttur, ég get ekki nýtt hann á svona hlaupum. Ég verð að fá andrúm og tækifæri til að ná að ráðfæra mig við mitt fólk og mína kjósendur og stuðningsmenn og mína nánustu áður en ég mæti fyrir þann fund sem getur þá farið yfir málið í rólegheitum,“ segir Karl Gauti í samtali við mbl.is.

Þykir leitt að hafa verið lengi á barnum

Í samræðunum á barnum í síðustu viku lýsti Karl Gauti meðal annars efasemdum sínum um Ingu Sæland, formann Flokks fólksins. Þau ræddust við í gær og baðst Karl Gauti afsökunar á ummælum sínum. „Ég er búinn að biðjast afsökunar á mínum ummælum um formanninn og veru mína á þessari samkomu, sem var allt of löng þó að ég hafi yfirgefið hana þarna um hálfellefu. Mér þykir leitt að ég hafi setið þarna svona lengi.“

Karl Gauti segir að taka verði á málinu af yfirvegun og fer hann fram á að fá að útskýra mál sitt. „ Ég gerði það í gær á fundi og þar var harkalega tekist á. Ég tel að flokkurinn verði auðvitað að skoða þetta mál í rólegheitunum og af yfirvegun.“

Ekki tilefni til að segja af sér þingmennsku

Þá telur hann að málefni flokksins skipti mestu í stóra samhenginu. „Við erum kosin til að vinna fyrir þá sem lökust hafa kjörin og við höfum gert það mjög vel og það er mikilvægt að flokkurinn haldi saman sinni samstöðu til að geta unnið áfram að þessu máli. Svona fljótfærnislegar ákvarðanir finnst mér ekki góðar. Ég fer fram á að okkur verði gefinn smá tími til að undirbúa okkar andmæli,“ segir Karl Gauti sem stendur við þau orð sín að honum sé enn sætt á Alþingi þrátt fyrir uppákomuna á barnum Klaustri í síðustu viku.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert