Vill að þingmennirnir fari í leyfi

Elvar Eyvindsson.
Elvar Eyvindsson. mbl.is/Sigurður Bogi

Varaþingmaður Miðflokksins í Suðurkjördæmi vill að þeir þingmenn flokksins, sem fóru ljótum orðum um ýmsa samþingmenn sína og aðra á krá í Reykjavík í síðustu viku, taki sér hlé frá þingstörfum fram á vorið að minnsta kosti og hugi á meðan að flokksstarfinu og sínum eigin málum. Sumir þeirra ættu jafnvel ekki að snúa aftur.

Þetta segir Elvar Eyvindsson, fyrrverandi sveitarstjóra Rangárþings eystra, á Facebook-síðu sinni í morgun. Vísar hann þar til þingmannanna Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, Gunnars Braga Sveinssonar, Önnu Kolbrúnar Árnadóttur og Bergþórs Ólasonar. Elvar tekur fram að þetta þýddi ekki að hann færi sjálfur á þing enda hafi hans aðalmaður, Birgir Þórarinsson, ekki verið staddur á kránni heldur verið að vinna við fjárlögin á sama tíma.

„Þingmenn Miðflokksins (ekki allir) hafa gert sig seka um mikla glópsku sem erfitt er að fyrirgefa þó að ég telji samt að það sé rétt að gera í fyllingu tímans. Þrátt fyrir það verður mjög erfitt fyrir almenning og samstarfsfólk að umbera þau eftir þetta í því starfi sem þau sinna,“ segir Elvar. Þeim verði auk þess sennilega lítið úr verki enda muni þau endalaust þurfa að verja afglöp sín og bera þau á herðum sínum um langa hríð.

„Ég legg því til að þau taki hlé frá þingstörfum til vors hið minnsta. Á meðan hugi þau að flokksstarfinu og eigin málum og stöðu og veiti varamönnum sínum þá aðstoð sem þau þurfa til góðra verka. Ekki er líklegt að skynsamlegt sé fyrir þau, sum að minnsta kosti, að snúa aftur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert