„Galin kerlingarklessa“

Eygló Harðardóttir var alþingismaður Suðurkjördæmis 2008–2013 fyrir Framsóknarflokkinn og félags- …
Eygló Harðardóttir var alþingismaður Suðurkjördæmis 2008–2013 fyrir Framsóknarflokkinn og félags- og húsnæðismálaráðherra 2013–2017. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Flokks fólksins, kallaði Eygló Harðardóttur, fyrrverandi ráðherra, „galna kerlingarklessu“ í samræðum við samstarfsmenn sína á Alþingi á Klausturbar nýverið. Þetta kemur fram í frétt Stundarinnar í gær.

Uppfært:

Karl segir að fjölmiðlar hafi farið mannavillt og að hann hafi ekki sagt þetta um Eygló. Þetta séu ekki hans orð og ekki hans rödd á upptökunni. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér í dag og mbl.is birti í framhaldinu:

„Hún bjó í Vestmannaeyjum, þess vegna studdi hana enginn,“ sagði Karl við kollega sína. „Það var ekkert í henni, það var ekkert í henni. Það var ekkert að frétta hjá þessari konu. Galin kerlingarklessa.

Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson.
Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson. Samsett mynd

Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason, þingmenn Flokks fólksins, voru reknir úr flokknum á stjórnarfundi hans síðdegis í gær. Þeir sitja áfram á þingi sem sjálfstæðir þingmenn, en voru þó af stjórn flokksins hvattir til að segja af sér þingmennsku. 

Í bréfi sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, sendi félögum sínum í flokknum síðdegis í gær var greint frá því að tveir þingmenn hans, Gunnar Bragi Sveinsson og Bergþór Ólason, myndu taka sér launalaust leyfi frá þingstörfum. Ekki kom fram hversu lengi það myndi vara. Sigmundur sagði að þetta væri þeirra eigin ákvörðun, samkvæmt frétt Morgunblaðsins í dag.

„Þetta eru eftirköst mikillar reiði og hneykslunar sem gripið hefur um sig í kjölfar birtingar nokkurra fjölmiðla á upptökum af samtölum þessara þingmanna og fleiri á barnum Klaustri við Kirkjutorg síðastliðinn þriðjudag. Þingmennirnir voru allir við skál. Orðbragð þingmannanna um ýmsa samstarfsmenn þeirra á þingi og utan þings hefur verið harðlega gagnrýnt,“ segir í frétt Morgunblaðsins í dag.

„Mér virðist sem stjórnin hafi greitt Flokki fólksins þungt högg með þessari ákvörðun. Þessi ákvörðun kallar á nánari skýringar af hálfu hennar. Hún sýnist lítt grunduð. Til mín hafa ekki verið rakin nein ummæli sem eru særandi eða meiðandi í garð nokkurs manns. Ég fór þegar ég taldi að í óefni stefndi en hefði átt að sjá það fyrr og fara fyrr, svo það sé viðurkennt,“ sagði Ólafur Ísleifsson í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi.

„Við Gauti verðum óháðir þingmenn. Á milli okkar hefur verið þétt málefnaleg og persónuleg samstaða og ég á von á að hún haldist,“ sagði Ólafur.

mbl.is

Bloggað um fréttina