Fólk hafi augun hjá sér

Þórir Ingvarsson lögreglufulltrúi biður fólk um að vera vakandi, en …
Þórir Ingvarsson lögreglufulltrúi biður fólk um að vera vakandi, en á sama tíma hafa ekki óþafa áhyggjur. Þá segir hann mikilvægt að fólk fari með gát til að sporna við innbrotum. mbl.is/Júlíus

„Það er skelfilegt að lifa í ótta við afbrot. Það getur jafnvel verið verra en að lenda í broti. Þannig að við verðum að hafa þetta allt í jafnvægi,“ segir Þórir Ingvarsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is um nýlega viðvörun lögreglunnar vegna innbrotsþjófa.

Hann tekur fram að mikilvægt sé að taka fram að núna er ekki um neina innbrotahrinu að ræða. „Það skapast oft hræðsla í samfélaginu og það byrjar að ganga um á Facebook að það séu innbrot hér og þar, oftar en ekki er það sama innbrotið sem fólk er að tala um.“

„Þannig að við biðjum líka fólk um að gæta sín og hafa ekki áhyggjur af óþörfu. Frekar viljum biðja fólk um að hafa augun hjá sér,“ segir Þórir

Á miðvikudag varaði lögreglan við innbrotsþjófum sem grunur er um að hafa komið hingað til lands og með skipulögðum hætti eru að brjótast inn í íbúðarhúsnæði. Þá hefur lögreglan sérstaklega nefnt einbýlishús á jaðarsvæðum þar sem sést illa frá öðrum húsum.

„Þetta eru aðferðir sem við höfum séð áður, nánar til tekið fyrir ári síðan. Við erum að reyna að vara fólk við um leið og við sjáum svona þróun,“ segir Lögreglufulltrúinn.

Nota almenningssamgöngur

Spurður hvort eftirlitsmyndavélar til þess að fylgjast með umferð inn og út úr hverfum hjálpi til við að hafa hendur í hári innbrotsþjófa, svarar Þórir: „Auðvitað getur allt hjálpað, en það má ekki heldur gleyma því að í þessu tilviki er grunur um að þeir ferðist ekki á bílum, að þeir séu í almenningssamgöngum. Svo geta innbrotsþjófar líka búið í sama hverfi. Ég veit að það getur komið mörgum á óvart, en það er þannig,“

Lögreglufulltrúinn segir myndavélar ekki leysa allan vanda, enda þarf að eyða miklum tíma í að fara yfir upptökur til þess að efnið nýtist.

„Aðal málið er að fólk andi rólega , en fari með gát. Það gangi tryggilega frá húsum, það gæti þess að það sé vel upplýst í kringum sig og að það sé gengið vel frá öllu,“ bætir hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert