Niðurstaða Landsréttar „mjög sjaldgæf“

Sveinn Andri Sveinsson, skiptastjóri EK 1923 ehf.
Sveinn Andri Sveinsson, skiptastjóri EK 1923 ehf. mbl.is/Árni Sæberg

„Við getum orðað það þannig að þetta sé mjög sjaldgæft. Það eru til dómafordæmi um þetta en það er sjaldgæft,“ segir Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður og skiptastjóri þrotabús EK1923 ehf., um dóm Landsréttar sem féll sl. föstudag í samtali við mbl.is

Landsréttur sneri þá við dómi Héraðsdóms Suðurlands og dæmdi Skúla Gunnar Sigfússon, kenndan við Subway, til að greiða þrotabúi EK1923 um 2,3 milljónir í skaðabætur vegna greiðslu sem EK1923 innti af hendi til kröfuhafans Evron Foods Ltd.

Komst Landsréttur að þeirri niðurstöðu þrátt fyrir að Skúli hefði hvorki verið framkvæmdarstjóri félagsins eða í stjórn þess þegar greiðslan var innt af hendi. Landsréttur taldi aftur á móti sannað að Skúli hefði með beinum eða óbeinum hætti gefið fyrirmæli um að skuldin yrði greidd og hefði því valdið EK1923 tjóni með saknæmum og ólögmætum hætti.

Leppur fenginn í stjórn félagsins

„Það í raun byggir á því að þó að stefndi í málinu, Skúli Gunnar, hafi ekki verið í stjórn eða verið framkvæmdarstjóri þá hafi hann sem eigandi tekið hina eiginlegu ákvörðun [að greiða reikning til Evron Foods Ltd], segir Sveinn Andri og bætir við:

„Það er gert ráð fyrir því í lögum um einkahlutafélög að eigandi geti borið skaðabótaábyrgð á ákvörðun félags þó hann hafi ekki formlega stöðu [sem framkvæmdarstjóri eða stjórnarmaður]. Það er sérstaklega talið geta átt við þegar það er bara einn eigandi einkahlutafélags eða eins og í þessu tilviki þegar það er útfarastjóri eða leppur fenginn í stjórnina sem veit hvorki lönd né strönd.“

„Frestdagur, það er dagurinn sem gjaldþrotabeiðni er lögð fram, var 9. maí 2016 en þarna er reikningur til erlends kröfuhafa Subway sem er greiddur 11. ágúst þá tæplega mánuði fyrir úrskurðardag [um gjaldþrotaskipti]. Landsréttur taldi sannað að stefndi, Skúli Gunnar, hefði bæði tekið hina eiginlegu ákvörðun um þetta og hefði hagsmuni af því. Þannig hann er talinn hafa valdið búinu tjóni með saknæmum og ólögmætum hætti,“ útskýrir Sveinn Andri.

Þrýstingur frá erlendum birgja

Niðurstaða Landsréttar var meðal annars byggð á framburði Friðriks Friðrikssonar, fyrrverandi rekstrarráðgjafa EK1923, Steingríms Hjaltasonar, stjórnarmanni EK1923, auk tölvupóstsamskipta milli þremenninganna. Þá var einnig byggt á tölvupóstum sem Skúli sendi samstarfsmanni sínum Guðmundi Hjaltasyni.

Sveinn segir að við skoðun á tölvupóstum Skúla til Friðriks og Guðmundar megi sjá að Skúli spyrji þá hvers vegna reikningurinn hafi ekki verið greiddur. „Þá hafði erlendi birginn snúið sér beint að honum [Skúla] og kvartað yfir því að reikningurinn væri ógreiddur. Þá sendir hann tölvupósta á Friðrik og Guðmund. Þeir aftur a móti sóru fyrir það í héraðsdómi að hafa haft afskipti af þessu.“

Spurður hvort að Evron Foods Ltd., með því að setja sig í beint samband við Skúla vegna skuldarinnar, hafi verið að setja þrýsting á hann til að liðka fyrir áframhaldandi viðskiptum segir Sveinn:

„Það var svo sem ekkert hægt að fullyrða um það en þeir voru að beina fyrirspurnum til hans og athugasemdum við að reikningurinn væri ógreiddur og í stað þess að borga hann sjálfur eða hans fyrirtæki þá lætur hann EK1923 borga þrátt fyrir að EK1923 væri hætt starfsemi og það væru fullt af öðrum kröfuhöfum sem voru að bera skarðan hlut frá borði.“

„Þá var þessi [kröfuhafi] tekinn fram yfir aðra og það var borgað, eftir frestdag, sem gengur auðvitað ekki upp,“ bætir Sveinn við og telur ólíklegt að dómnum verði áfrýjað.

Enn á eftir að dæma í stærsta málinu

Dómurinn er sá þriðji sem fellur á skömmum tíma þar sem Sveinn Andri sem skiptastjóri þrotabús EK1923 hefur betur í máli gegn Skúla eða félögum í hans eigu. Stjarnan ehf., rekstraraðili Subway, var í síðustu viku dæmt til að greiða þrotabúinu 15 milljónir króna.

Þá var fasteignafélag Skúla, Sjöstjarnan ehf., dæmt til að greiða þrotabúinu tæpar 223 milljónir í héraðsdómi í október og staðfesti héraðsdómur á sama tíma riftun greiðslu EK1923 til Sjöstjörnunnar að fjárhæð 21,3 milljónir. Uppreiknaðar með vöxtum og dráttarvöxtum nema kröfurnar um 407 milljónum króna.

Þeim málum var áfrýjað og verða tekin fyrir saman fyrir Landsrétti um mitt næsta ár.

Héraðssaksóknari rannsakar Skúla

Þá kom fram á Vísi í september að Sveinn Andri hefði tilkynnt Skúla, sem eiganda Sjöstjörnunnar, og Guðmund Hjaltason, framkvæmdarstjóra félagsins, til embættis héraðssaksóknara vegna gruns um að þeir hafi gerst sekir um skilasvik og fjárdrátt eða umboðssvik í störfum sínum fyrir félagið.

Meint brot eiga að varða við refsiákvæði gjaldþrotalaga og ákvæði almennra hegningarlaga um fjársvik og skjalafals. Þá vakti Sveinn Andri athygli á þeim grun sínum að Skúli, Guðmundur og lögmaður Sjöstjörnunnar hafi lagt fram efnislega röng sönnunargögn og/eða haldið réttum sönnunargögnum og upplýsingum frá dómi í staðfestingarmáli er varðaði kyrrsetningu á eignum Skúla.

Endurskoðandi félagsins og lögmaður þess í málum er varða þrotabú EK voru einnig tilkynntir til embættisins auk þess sem Sveinn Andri taldi tilefni til að kanna aðkomu KPMG og Landsbankans að málinu.

Sveinn Andri segir við mbl.is að hann hafi enga ástæðu til að ætla annað en að ákært verði í málinu en það velti hins vegar á héraðssaksóknara eða ríkissaksóknara ef svo ber undir.

Fulltrúi héraðssaksóknara sem fer með rannsókn málsins staðfesti, í samtali við mbl.is fyrr í dag, að rannsóknin væri í fullum gangi en gat ekki tjáð sig frekar um hana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert