Freistist til að „ná í fleiri krónur“

Runólfur segir að verðlækkanir á eldsneyti skili sér hægt til …
Runólfur segir að verðlækkanir á eldsneyti skili sér hægt til íslenskra neytenda. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, segir að freisting til þess að „ná í fleiri krónur“ sé líklega ástæða þess að lækkun á olíuverði á heimsvísu skili sér hægar til íslenskra neytenda en ella. Hann segir að verðlækkun á heimsmarkaði með olíu nemi u.þ.b. tuttugu krónum samanborið við þrettán krónur hér á landi.

„Það er ánægjulegt að eldsneytisverð hefur haldið áfram að sveiflast niður á við. Síðan hefur krónan aðeins verið að braggast síðustu daga gagnvart bandaríkjadal. Í eðlilegu umhverfi á þetta að koma neytendum til góða, en það virðist ekki vera að skila sér á sama hraða og við sjáum á heimsmarkaði,“ segir Runólfur.

Útsöluverð haldist nær óbreytt frá byrjun desember

„Sem dæmi má nefna að frá því eldsneyti var dýrast fyrir almenning hér á landi 10. október hefur verðið lækkað um þrettán og hálfa krónu að meðaltali ef miðað er við krónur á hvern lítra. Í þessum mánuði hefur verðið verið í sama farinu. Á sama tíma hefur heimsmarkaðsverðið lækkað um tuttugu krónur. Í útsöluverði bætist virðisaukaskattur ofan á og ef gerðum ráð fyrir því væru þessar tuttugu krónur orðnar 25 krónur. Það er ljóst að það er mikill verðlækkunarþrýstingur,“ segir hann.

Birgðahald olíufélaganna hefur takmarkað vægi við verðmyndun á eldsneytismarkaði að …
Birgðahald olíufélaganna hefur takmarkað vægi við verðmyndun á eldsneytismarkaði að mati Runólfs. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Runólfur bendir á að eldsneytisverð hafi almennt verið óbreytt hjá íslensku olíufélögunum það sem af er þessum mánuði.

„Kostnaðarverðið hefur þó lækkað um fimm krónur miðað við það sem það var nú á föstudag, þ.e.a.s. rúmar sex krónur í útsölu. Það er greinilegt að menn eru ekki að skila því sem við teldum eðlilegt hér á markaði. Kannski er það einhver freisting að reyna að grípa jólaumferðina á hærri verðum, ég skal ekki segja,“ segir Runólfur.

Birgðahald hafi ekki mikið vægi í verðmyndun

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær var fjallað um þróun olíuverðs og fram kom m.a. fram í máli Jóns Bjarka Bentssonar, aðalhagfræðings Íslandsbanka, að birgðahald olíuhalds hjá olíufyrirtækjunum gerði það að verkum að verðlækkanir kæmu ekki strax fram hjá neytendum enda þyrftu fyrirtækin að fá það innkaupsverð til baka þótt verðið hafi breyst í millitíðinni. Runólfur er ósammála þessu.

„Birgðir hafa ekki þá vigt sem þarna kom fram. Olíufélögin kaupa af sama erlenda birgja og sá aðili á meginbirgðirnar. Þegar við horfum út í Örfirisey, þá sjáum við þær. Einu birgðirnar sem olíufélögin hafa á hverjum tíma eru þær sem eru á bensínstöðvunum og það er auðvitað mjög forgengilegt eldsneyti sem gengur hratt á, sérstaklega á söluhærri stöðum. Vægi birgða í verðmynduninni er hverfandi, en það eru nokkur ár síðan þessi viðskipti breyttust svolítið hvað þetta varðar,“ segir hann.

En hverjar eru ástæðurnar fyrir því að verðið lækkar ekki jafn hratt til neytenda?

„Ég held það sé bara freistingin að ná í fleiri krónur. Hver króna í álagningu sem hægt er að halda uppi yfir eitt ár á íslenska olíumarkaðnum eru um 350-360 milljónir króna upp úr vösum neytenda. Hinar bláköldu tölur sýna okkur þetta,“ segir Runólfur.

mbl.is