Hvetja til stuðnings án flugeldakaupa

Ungir umhverfissinnar hvetja almenning til að láta af flugeldakaupum- og …
Ungir umhverfissinnar hvetja almenning til að láta af flugeldakaupum- og skotum um áramót og styðja þess í stað við björgunarsveitirnar með fjárframlögum. AFP

Ungir umhverfissinnar hvetja almenning til að styðja við björgunarsveitir landsins með öðrum hætti en flugeldakaupum. Pétur Halldórsson, formaður Ungra umhverfissinna, segir í samtali við mbl.is að ár hvert láti 80 manns lífið af völdum svifryks og flugeldasprengingar auki svifryk í andrúmslofti.

„Það skýtur skökku við að styðja við starf eins og björgunarsveita með því að stuðla að dauðsföllum,“ segir Pétur og bendir einnig á loftlagsbreytingar og spillt vatns- og umhverfisgæði af völdum flugelda. „Þá þarf að urða fleiri tonn vegna úrgangs af flugeldum,“ segir hann.

Pétur Halldórsson, formaður Ungra umhverfissinna.
Pétur Halldórsson, formaður Ungra umhverfissinna. Ljósmynd/Aðsend

Að sögn Péturs eru 800 meðlimir í Ungum umhverfissinnum og eru samtökunum ætlað að vera málsvari ungs fólks í umhverfismálum. Tók félagið meðal annars þátt í loftlagsráðstefnu í Póllandi á dögunum og vinnur um þessar mundir að því að koma á fót alþjóðlegu tengslaneti ungmenna um norðurslóðir.

„Þetta er að þróast í rétta átt,“ segir Pétur um breytt viðhorf almennings gagnvart flugeldum en hann telur að hugarfarsbreyting almennings sé mikilvægur undanfari lagasetningar gegn sölu flugelda.

„Það er meiri umræða um skaðsemi flugelda og sífellt fleiri kjósa að styðja við björgunarsveitir með fjárframlögum. En að því sögðu þá eigum við langt í land eins og sást í fyrra í stilltu veðri og loftgæði urðu ein þau verstu í heiminum,“ segir Pétur sem fagnar framtaki björgunarsveitanna sem bjóða í ár fólki að skjóta rótum í stað flugelda með sölu græðlinga til gróðursetningar í Áramótaskógi björgunarsveitanna.

mbl.is