Samstarfið ekki að liðast í sundur

Frá fundum undirhópa SGS og SA í morgun. Á myndinni …
Frá fundum undirhópa SGS og SA í morgun. Á myndinni er m.a. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sem sagði sig frá samstarfi SGS rétt fyrir jól. mbl.is/Eggert

Framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins segist ekki líta svo á að samstarf aðildarfélaga sambandsins sé að liðast í sundur við gerð kjarasamninga við Samtök atvinnulífsins. Verkalýðsfélag Grindavíkur afturkallaði samningsumboð sitt fyrr í dag og hefur vísað deilunni til ríkissáttasemjara.

Hinn 6. október á síðasta ári greindi Starfsgreinasambandið frá því að öll 19 aðildarfélög sambandsins hefðu veitt sambandinu samningsumboð og félögin myndu því koma sameinuð að gerð kjarasamninga. Var þá um að ræða sögulegan áfanga þar sem það var í fyrsta skipti í sögu sambandsins sem öll aðildarfélög framseldu samningsumboðin til SGS vegna kjarasamninga á almennum markaði.

Rétt fyrir jól afturkölluðu Efling og Verkalýðsfélag Akraness samningsumboðið frá Starfsgreinasambandinu og vísuðu deilunni til ríkissáttasemjara og varð Verkalýðsfélag Grindavíkur því þriðja félagið til að afturkalla umboðið. Þá hefur Framsýn á Húsavík gefið út að félagið taki ákvörðun í lok vikunnar, eftir gangi viðræðna, hvort það afturkalli samningsumboð frá SGS.

„Við lítum ekki svo á að samstarfið sé að liðast í sundur,“ segir Flosi Eiríksson, framkvæmdastjóri SGS. „Ef við lítum aftur í tímann er hefð fyrir því að félög sem nú mynda Starfsgreinasambandið hafi haft samstarf með ýmsum hætti. Það er ekki hægt að lesa meira í þetta en það.“

Flosi bendir á að Verkalýðsfélag Grindavíkur hefði sent frá sér ályktun strax í byrjun þessa árs þar sem þeir gáfu út að þeir segðu sig úr samstarfinu teldi félagið hraðann á gangi viðræðnanna ekki nægilegan. Þá hafi félagið óskað eftir því að taka áfram þátt í vinnu undirhópa í viðræðunum við SA.

Næstu tveir, þrír dagar ráða úrslitum

Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar, segir í samtali við mbl.is að félagið ætli að halda sínu striki og gefa viðræðunum út vikuna áður en ákveðið verður með næstu skref.

„Næstu tveir, þrír dagar ráða úrslitum um hvort við munum vísa eða ekki,“ segir Aðalsteinn. „Við ákváðum að gefa þessu þessa viku og erum að vinna eftir þeirri áætlun. Ef ekkert er að gerast stöndum við frammi fyrir því að taka samningsumboðið til baka og vísa, og við erum að keppast við tímann við að láta þetta ganga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert