Auglýsa eftir forstjóra Barnaverndarstofu

Auglýst hefur verið eftir forstjóra Barnaverndarstofu.
Auglýst hefur verið eftir forstjóra Barnaverndarstofu. mbl/Arnþór Birkisson

Starf forstjóra Barnaverndarstofu hefur verið auglýst laust til umsóknar og er umsóknarfrestur til 28. janúar 2019. Þetta kemur fram á vefsíðu félagsmálaráðuneytisins. Forstjóri Barnaverndarstofu stýrir starfi stofnunarinnar og heyrir undir félags- og barnamálaráðherra.

Bragi Guðbrandsson lét af starfi forstjóra í febrúar í fyrra eftir að hafa tekið sæti í Barna­rétt­ar­nefnd Sam­einuðu þjóðanna fyr­ir Íslands hönd og tekið að sér sérverkefni á vegum velferðarráðuneytisins. Staðgengill hans, Heiða Björg Pálma­dótt­ir, hefur gegnt starfi forstjóra Barnaverndarstofu tímabundið. Skipað er í starfið til fimm ára í senn.

Í auglýsingunni kemur fram að Barnaverndarstofa vinni að samhæfingu og eflingu barnaverndarstarfs í landinu og er ráðherra til ráðgjafar um stefnumótun í málaflokknum. Hún hlutast til um að fram fari þróunar- og rannsóknastarf á sviði barnaverndar. Barnaverndarstofa hefur með höndum leiðbeiningar um túlkun og framkvæmd barnaverndarlaga og fræðslu og ráðgjöf fyrir barnaverndarnefndir í landinu. Enn fremur hefur Barnaverndarstofa eftirlit með störfum barnaverndarnefnda. Barnaverndarstofa annast leyfisveitingar til fósturforeldra, tekur ákvarðanir og veitir barnaverndarnefndum liðsinni í fósturmálum, fer með yfirstjórn heimila og stofnana sem ríkinu ber að sjá til að séu tiltæk og hlutast til um að slík heimili og stofnanir verði sett á fót. Stofan hefur yfirumsjón með vistun barna á þessum heimilum og stofnunum.

Félagsmálaráðuneytið vinnur nú að heildarendurskoðun á barnaverndarlöggjöf og framkvæmd þjónustunnar við börn og geta breytingar orðið sem hafa áhrif á starfsemi Barnaverndarstofu.

mbl.is