Tilefni til að biðjast afsökunar

Bragi Guðbrandsson, fyrrverandi forstjóri Barnaverndarstofu.
Bragi Guðbrandsson, fyrrverandi forstjóri Barnaverndarstofu. Ljósmynd/Aðsend

„Það hafa stór orð verið látin falla í þessu máli og mér finnst alveg tilefni til þess að þeir sem hafa gert það sýni úr hverju þeir eru gerðir og biðjist afsökunar á þeim,“ segir Bragi Guðbrandsson, fyrrverandi forstjóri Barnaverndarstofu, í samtali við mbl.is í kjölfar þeirrar niðurstöðu rannsóknar velferðarráðuneytisins að hann hafi ekki farið út fyrir verksvið sitt í aðkomu sinni að barnaverndarmáli í Hafnarfirði þar sem Bragi átti í samskiptum við föðurafa barns sem grunur var um að hefði verið beitt kynferðisofbeldi.

Velferðarráðuneytið komst upphaflega að þeirri niðurstöðu að Bragi hefði farið út fyrir verksvið sitt í málinu en óháð úttekt sem framkvæmd var af Kjartani Björgvini Bjarnasyni dómara og Kristínu Benediktsdóttur dósent leiddi í ljós að ráðuneytið hefði ekki verið í aðstöðu til þess að fullyrða að Bragi hefði farið út fyrir verksvið sitt í málinu í ljósi þeirra takmörkuðu gagna sem það hefði aflað sér við meðferð málsins. Þá hefði verið brotið bæði gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar og andmælarétti hans.

Niðurstaðan hafin yfir allan vafa

Fram kemur í niðurstöðu velferðarráðuneytisins að misbrestur hafi orðið á málsmeðferð ráðuneytisins sem leitt hafi til fyrri niðurstöðu þess í febrúar þar sem ekki hafi verið farið að grundvallarreglum stjórnsýsluréttarins. Þá verði, eftir athugun á gögnum málsins og framgöngu Braga, ekki séð að hann hafi sem forstjóri Barnaverndarstofu farið út fyrir verksvið sitt. Ekki væri heldur séð, með vísan til gagna málsins, að upplýsingagjöf hans til föðurafans í málinu hafi gefið ráðuneytinu tilefni til athugasemda.

„Þessar ávirðingar hafa núna hvílt á mér í tíu mánuði og ég hef tekið þær nærri mér þar sem ég hef helgað líf mitt baráttunni fyrir bættum rétti barna og vernd þeirra. Ég hefði aldrei fyrirfram trúað því að málarekstur gæti verið með þeim hætti sem raun ber vitni um í íslenskum fjölmiðlum og ennfremur að heilu stjórnmálahreyfingarnar myndu álykta með jafn ótrúlegum hætti í þessu máli. En þessi niðurstaða er hafin yfir allan vafa. Hún byggir á ítarlegri rannsókn virtra lögfræðinga á málsmeðferðinni og efnislegum gögnum málsins og ég vona að þeir sem hafa gengið hvað fremst í fararbroddi í því að ráðast að minni persónu í þessum efnum að þeir íhugi mál sitt og stöðu sína í framhaldinu.“

mbl.is/Eggert
mbl.is

Bloggað um fréttina