Misnotaði stöðu sína gegn Aldísi

Jón Baldvin hefur verið borinn alvarlegum sökum af fjölda kvenna.
Jón Baldvin hefur verið borinn alvarlegum sökum af fjölda kvenna. mbl.is/RAX

Jón Baldvin Hannibalsson notaði sendiráðsbréfsefni og undirritaði bréf sín til íslenskra ráðuneyta sem sendiherra, þar sem hann óskaði eftir því að dóttir hans, Aldís Schram, yrði nauðungarvistuð á geðdeild.

Í að minnsta kosti einu tilfelli var nauðungaraðgerð, þar sem lögregla og læknar réðust inn á heimili hennar, skráð sem aðstoð við erlent sendiráð í lögregluskýrslu.

Þetta kom fram í viðtali við Aldísi í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun og er frásögn hennar staðfest í skjölum sem Ríkisútvarpið hefur undir höndum.

Aldís hefur í áratugi fullyrt að Jón Baldvin hafi brotið kynferðislega gegn konum, þar á meðal henni sjálfri, og nú hefur fjöldi kvenna stigið fram innan Metoo-hóps og greint frá ofbeldi og áreiti af hans hálfu. Fjölskylda hennar hefur lengi haldið því fram að hún sé veik á geði og að frásagnir hennar skuli ekki taka trúanlegar.

Hún hefur nýlega fengið vottorð lækna þess efnis að hún sé ekki með geðhvörf, eins og haldið hefur verið fram, heldur þjáist hún af áfallastreituröskun sem mögulega megi rekja til kynferðisofbeldis.

Aldís var nauðungarvistuð á geðdeild í fyrsta sinn árið 1992, þegar Jón Baldvin gegndi embætti utanríkisráðherra Íslands, skömmu eftir að hún hótaði föður sínum lögsókn vegna kynferðisbrota. Næstu tíu árin var hún nauðungarvistuð fimm sinnum að beiðni Jóns Baldvins.

Aldís er staðráðin í því að fá það viðurkennt af yfirvöldum að brotið hafi verið á mannréttindum hennar.

mbl.is

Bloggað um fréttina