Klósettferðin á BSÍ kostar 200 krónur

Það kostar 200 krónur að nota salernisaðstöðu á BSÍ og …
Það kostar 200 krónur að nota salernisaðstöðu á BSÍ og hægt er greiða bæði með pening og greiðslukorti. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gjaldtaka hófst í vikunni fyrir notkun salernisaðstöðu á BSÍ. Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða, segir að ákvörðunin hafi verið tekin í haust og að tilgangurinn sé fyrst og fremst að tryggja hreinlæti og bætta þjónustu við viðskiptavini. 200 krónur kostar að fara á salernið en frítt er fyrir börn.

„Það var alveg skýrt í okkar huga að við vildum ekki hefja gjaldtöku öðruvísi en að bjóða upp á fyrsta flokks salernisaðstöðu,“ segir Björn í samtali við mbl.is.

Salernisaðstaðan var orðin dapurleg

Umferðarmiðstöðin BSÍ er opin allar sólarhringinn og fara um tvær milljónir gesta í gegnum húsnæðið árlega. Björn segir að aðstæður á salernunum hafi verið orðnar frekar dapurlegar og því var ákveðið að ráðast í aðgerðir. „Það var orðinn mikill kostnaður að halda þessu í lagi allan sólarhringinn og það var kominn tími á endurnýjun á klósettunum og við tókum þau alfarið í gegn og endurnýjuðum allt saman og hófum um leið þessa gjaldtöku,“ segir Björn. Kostnaðurinn við framkvæmdirnar var á bilinu 15 til 20 milljónir, að sögn Björns.

200 krónur er að mati Björns hæfilegt verð fyrir eina klósettferð og þá aðstöðu sem er á salernunum. „Auðvitað eru mismunandi skoðanir á því en ég held að fólk leggi líka mikið upp úr því að það sé snyrtilegt á klósettunum og við munum auka kröfurnar til okkar sjálfra með hreinlæti og snyrtimennsku.“

Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða, segir tilgang með gjaldtöku fyrir notkun …
Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða, segir tilgang með gjaldtöku fyrir notkun salerna á BSÍ fyrst og fremst að tryggja hreinlæti og bætta þjónustu við viðskiptavini. mbl.is/Kristinn Magnúsosn

Býst við óánægju frá fastagestum

Greiðsluvél er við salernin og er bæði hægt að greiða með peningum og greiðslukorti. Björn segir að gjaldtakan hafi farið vel að stað. „Auðvitað er langstærsti hluti þessara gesta erlendir ferðamenn og eru kannski vanari en við að það sé gjaldtaka á klósettum og ég held að þeir kippi sér ekkert upp við þetta,“ segir Björn, sem býst þó við einhverjum athugasemdum frá fastagestum BSÍ. „Auðvitað má búast við því að einhver óánægja verði hjá öðrum gestum á BSÍ sem eru fastir viðskiptavinir.“  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert