Kalla þurfi fram vilja fólksins

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir ástand mála í Venesúela algerlega …
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir ástand mála í Venesúela algerlega ólíðandi. mbl.is/Árni Sæberg

„Ástandið í Venesúela er algerlega ólíðandi og við höfum tjáð okkur um það á vettvangi mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna. Stjórnmálaástandið hefur verið í ólestri um langa hríð og efnahagskerfi landsins er einfaldlega hrunið.“

Þetta segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra um stöðu mála í Venesúela þar sem miklir efnahagserfiðleikar hafa geisað um árabil með tilheyrandi fólksflótta úr landi. Deilt er um það hver fari með völdin í landinu. Juan Guaido, forseti þingsins í Venesúela, lýsti sig fyrr í vikunni starfandi forseta landsins samhliða miklum mótmælum gegn stjórn Nicolas Maduro sem endurkjörinn var forseti á síðasta ári.

AFP

Óstjórn, meingölluð hugmyndafræði og ofbeldi

Guðlaugur Þór segir óstjórn, meingallaða hugmyndafræði og ofbeldi núverandi forseta og stjórnvalda með stuðningi frá einstökum ríkjum, eins og Rússlandi og Kúbu, einkenna ástandið. Vöruskortur og óðaverðbólga geri það að verkum að þrjár milljónir manna hafi flúið landið sem sé ríkt af auðæfum. Forsetakosningarnar á síðasta ári hafi verið meingallaðar og úrslitin engan veginn endurspeglað vilja fólksins.

„Maduro forseti hefur á undanförnum misserum gerst nær einráður, svipt þingið völdum og komið á nýju ólöglegu stjórnlagaþingi sem stjórnarliðar einir sitja. Þá eru dómstólar einnig hliðhollir Maduro. Ég ræddi málefni Venesúela í ræðu minni í mannréttindaráðinu á síðasta ári og því hefur verið fylgt eftir af fólkinu okkar í Genf.“

AFP

Samráð við samstarfsríki um næstu skref

Enn fremur hafi Ísland verið meðflytjandi að ályktun í mannréttindaráðinu í september um málefni Venesúela sem markað hafi tímamót fyrir þá sök að hún hafi verið lögð fram með vitund og vilja nágrannaríkjanna sem skipti máli.

„Með því var þrýst á stjórnvöld í Venesúela að vinna með Sameinuðu þjóðunum að því að tryggja réttindi fólks í landinu. Samtök Ameríkuríkja hafa um langt skeið þrýst á breytingar í landinu. Auk Bandaríkjanna hafa nokkur ríki í Suður-Ameríku viðurkennt Guaido sem forseta hins réttkjörna þings, sem forseta landsins.“

„Við erum í nánum samskiptum við okkar helstu samstarfsríki um næstu skref. Aðalatriðið er að kalla fram raunverulegan vilja fólksins í nýjum kosningum og að þingið fái aftur löggjafarvaldið og geti sinnt hlutverki sínu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert