Fann 700 ára gamlar rúnir á Fjóni

Turninn var reistur árið 1300. Gert var við vegginn 1550 …
Turninn var reistur árið 1300. Gert var við vegginn 1550 eins og sést til hægri. Ljósmynd/Þórleifur Jónsson

Íslenskur arkitekt fann nokkuð hundruð ára gamalt veggjakrot í kjallara turns sem tilheyrir Nýborgarkastala á Fjóni í Danmörku nú í byrjun árs.

„Við skoðun og skráningu á aðstæðum þá sá ég þarna skriftir á kjallaraveggjum sem þeir sem hafa verið að vinna hér síðustu ár höfðu ekki tekið eftir,“ segir Þórleifur Jónsson, sem vinnur að viðgerð og endurhönnun kastalans hjá teiknistofunni VBM-arkitekter.

Þórleifur Jónsson arkitekt.
Þórleifur Jónsson arkitekt.

Fjallað hefur verið um fundinn í dönskum miðlum, svo sem á TV2, en rúnirnar voru ristar á tímabilinu 1300 til 1550 og eru því allt að 700 ára gamlar. Í myndbandi með fréttinni má sjá Þórleif í íslenskri lopapeysu.

„Hugsanlega er krotið eftir fanga sem geymdir hafa verið í turninum,  en það þekkist frá öðrum turnum af þessari gerð að kjallarar þeirra voru notaðir sem fangaklefar,“ útskýrir Þórleifur.

„Og þar sem Nýborg var konungshöll gætu þetta verið skriftir eftir pólitíska andstæðinga konungs eða aðra merka menn sem dæmdir hafa verið á konungsþingi.“

Umræddan turn segir Þórleifur aðeins vera leifar af 35 metra háum vaktturni og hringmúr frá árinu 1200, þar sem hægt var að skima yfir svæðið. Í dag séu hins vegar aðeins varðveittar neðstu þrjár hæðir turnsins og felst skoðun VBM-arkitekta einnig í því hvort hægt sé að byggja á hann fleiri hæðir á endurreisa hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert