„Klikkaðar og geðveikar“ fyrrverandi

Drífa Jónasdóttir, afbrotafræðingur og doktorsnemi við læknadeild Háskóla Íslands, vann …
Drífa Jónasdóttir, afbrotafræðingur og doktorsnemi við læknadeild Háskóla Íslands, vann skýrsluna fyrir Kvennaathvarfið. mbl.is/Hari

„Alltaf allt mér að kenna. Hann smám saman náði stjórn á mér. Alltaf allt á hans forsendum. Vaknaði oft með hann að „riðlast“ á mér.“ Þetta er eitt dæmi af mörgum um rauðu ljósin sem konur, sem eru þolendur heimilisofbeldis, greindu frá í rannsókn á upplifun og líðan þolenda ofbeldis sem Drífa Jónasdóttir, afbrotafræðingur og doktorsnemi við læknadeild Háskóla Íslands, vann fyrir Kvennaathvarfið en hún er verkefnastýra þar.

Margar þeirra nefna einnig að sökin á ofbeldinu var alltaf þeirra og margir ofbeldismannanna hafi átt, að eigin sögn, „klikkaðar og geðveikar“ fyrrverandi.

Gagnasöfnun fór fram gegnum samfélagsmiðla og heimasíðu Kvennaathvarfsins í haust. Þátttakendur voru beðnir að svara spurningum um líðan sína og upplifun í gegnum sambandið og lýsa hvernig þær upplifðu persónuleikaeinkenni makans. Annars vegar var beðið um svör kvenna sem höfðu reynslu af ofbeldi í nánu sambandi við maka (rannsóknarhópur) og hins vegar svör kvenna sem ekki hafa reynslu af slíku (samanburðarhópur).

Notast var við hentugleikaúrtak og alls bárust 326 svör. Í rannsóknarhópnum (höfðu reynslu af ofbeldissambandi) voru 202 konur, eða 62% svarenda. Þar af voru 6,5% enn þá í sambandinu en 93,5% voru ekki lengur í sambandinu.

Í samanburðarhópi (höfðu aldrei verið í ofbeldissambandi) voru 124 konur (38% svarenda), af þeim voru 85% enn þá í sambandinu en 15% voru ekki lengur í sambandinu. 

Drífa segir ástæðuna á bak við það að hún gerði rannsóknina vera svör sem hún fékk hjá konum sem hafa leitað til Kvennaathvarfsins. Svörin voru öll á svipaða leið. 

Svipaður rauður þráður hjá þeim

„Ég sá að það var sami eða svipaður rauður þráður hjá þeim öllum. Ég ákvað því að taka saman hver upplifun þessara kvenna væri á skipulagðan hátt. Svör eins og – hann sagði að ég væri klikkuð. Fjölskyldan mín væri frekar leiðinleg en hann gæti sætt sig við að vera með mér ef ég tæki mig aðeins á,“ segir Drífa spurð um hvað hafi orðið til þess að hún vann skýrsluna fyrir Kvennaathvarfið. 

Af 202 konum sem höfðu reynslu af heimilisofbeldi svöruðu 118 konur spurningunni um kynferðislegt ofbeldi játandi. Ef hlutfall kvenna sem greindu frá kynferðislegu ofbeldi í hverri viku, oft í viku og daglega er lagt saman kemur í ljós að hlutfallið er 38%. Það er þær konur sem voru beittar kynferðislegu ofbeldi í hverri viku eða oftar.

Drífa segir að oft sé erfitt fyrir konur að átta sig á því, og viðurkenna fyrir sér, að þær séu þolendur heimilisofbeldis. Til að mynda eru margar óvissar um hvort það teljist kynferðislegt ofbeldi ef maki þvingar þær til kynferðislegra athafna. „Kynferðislegt ofbeldi í nánum samböndum getur verið svo margs konar. Til að mynda getur verið snúið að svara spurningunni: Hefur makinn þvingað þig til kynferðislegra athafna, suðað eða hótað til að ná sínu fram, hefur þú vaknað við að hann er að hafa við þig samfarir? Þú getur alveg viljað stunda kynlíf með viðkomandi en ekki endilega á þeim forsendum sem makinn vill og þvingar þig til. Þá er það ofbeldi,“ segir hún. 

Í viðtali við Drífu í Sunnudagsmogganum árið 2016 kom fram að talið er að kostnaður þjóðfélagsins vegna heimilisofbeldis gegn konum geti numið milljörðum króna árlega þegar allt er talið en í doktorsverkefninu sínu er hún að rannsaka hvað heim­il­isof­beldi kost­ar þjóð­fé­lagið.

Drífa segir að upplýsingarnar sem koma fram í rannsókninni nú séu gríðarlega mikilvægar hvað varðar ofbeldi í nánum samböndum og áhugavert sé að fylgja þessu eftir með frekari rannsóknum. 

Nær allar konurnar (98%) sem höfðu reynslu af heimilisofbeldi höfðu orðið fyrir andlegu ofbeldi en um 62% þeirra höfðu einnig reynslu af líkamlegu og 60% kvennanna höfðu einnig reynslu af kynferðislegu ofbeldi.

Morðhótanir eru einnig algengar í ofbeldissamböndum og sögðust 23% kvennanna hafa fengið morðhótun frá núverandi eða fyrrverandi maka sínum. Meira en helmingur svarenda greinir frá fjárhagslegu ofbeldi (54%) og 24% frá stafrænu ofbeldi. Alls hafa 40% upplifað makann sem eltihrelli (e. stalking) og 7% greina frá stafrænu kynferðisofbeldi. Alls hefur um þriðjungur (29%) svarenda reynslu af því að núverandi eða fyrrverandi maki þeirra hafi beitt börnin ofbeldi. 

Andlegt ofbeldi mjög algengt

Í rannsóknarhópnum tóku 99% kvenna afstöðu til spurningar um tíðni andlegs ofbeldis. Rúm 40% kvennanna sem höfðu orðið fyrir andlegu ofbeldi upplifðu daglegt andlegt ofbeldi af hálfu maka. Ef við leggjum saman hlutfall kvenna sem greindu frá andlegu ofbeldi í hverri viku, oft í viku og daglega er samanlagt hlutfall 84%. Þá má því segja að 84% kvenna sem svöruðu spurningunni upplifðu andlegt ofbeldi í hverri viku eða oftar.

Af 202 konum sem höfðu reynslu af heimilisofbeldi höfðu 120 þeirra orðið fyrir líkamlegu ofbeldi. Ef hlutfall kvenna sem greindu frá líkamlegu ofbeldi í hverri viku og oft í viku er lagt saman er hlutfallið 25%. Það er fjórðungur kvennanna 120 voru beittar líkamlegu ofbeldi í hverri viku. Sumar oft í viku.

Hlutfall kvenna sem höfðu verið beittar fjárhagslegu ofbeldi var svipað og þeirra sem urðu fyrir líkamlegu ofbeldi eða 119 talsins af 202 konum. Af þessum 119 konum hafði tæplega helmingur upplifað slíkt í hverri viku. 

Að sögn Drífu getur fjárhagslegt ofbeldi sett konur í mjög erfiða stöðu þegar þær reyna að brjótast út úr ofbeldissamböndum. Þær eiga oft erfiðara með að taka af skarið og fara, ekki síst ef börn eru í spilinu. 

Eitt af því sem var tekið fyrir í rannsókninni er stafrænt ofbeldi en að sögn Drífu er það af margvíslegum toga. „Til að mynda þegar makinn skrifar eitthvað á netinu í þínu nafni. Fer inn á svæðið þitt á netinu, svo sem póst, heimabanka og á samfélagsmiðla. Hann hefur í raun aðgang að öllu þínu rafræna lífi,“ segir Drífa og bætir við að þetta eigi jafnframt við um staðsetningarbúnað í snjalltækjum og bílum. „Búnaður og stillingar sem makinn getur með auðveldum hætti sett upp til þess að fylgjast með hverju þínu skrefi,“ segir hún. Alls höfðu 46 kvennanna sem höfðu verið í ofbeldissamböndum orðið fyrir stafrænu ofbeldi.

Heimilisofbeldi beinist að börnum

57 konur af 202 sögðu að börn á heimilinu hafi verið beitt ofbeldi. Ef lagt er saman hlutfall kvenna sem greindu frá tíðni ofbeldis gegn börnum í hverri viku, oft í viku og daglega er hlutfallið 35%. Í þessu samhengi eru 35% um 20 konur og athugið að hver kona getur verið að svara fyrir ofbeldi gegn fleiri en einu barni, segir í rannsókn Drífu. 

Drífa segir að þegar ofbeldi er inni á heimilinu megi í raun segja að það beinist gegn börnunum sem búa á heimilinu. Skiptir þar ekki öllu máli hvort barnið verður persónulega fyrir ofbeldinu eður ei því rannsóknir sýna að það er ekki marktækur munur á líðan barns sem verður beint fyrir ofbeldinu eða upplifir það á heimilinu. Kvíðinn og vanlíðanin er sú sama. „Þetta er ekkert annað en ofbeldi þó svo að það sé ekki verið að lemja þau,“ segir Drífa. 

Hún segir að það sé ótrúlegt hversu mörg börn á Íslandi búa við ofbeldi og rannsóknin sýni svipaðar niðurstöður og koma fram í ársskýrslum Kvennaathvarfsins. 

Árið 2017 leituðu 405 konur og 103 börn í Kvennaathvarfið og sú tala er lægri á síðasta ári, segir Drífa.

Samanburðarhópurinn, það er konur sem ekki upplifa að þær búi við heimilisofbeldi, samanstóð af 124 konum. 14 þeirra höfðu upplifað eitthvað af eftirfarandi: ...þvingað þig til kynferðislegra athafna, pressað/suðað/hótað, hefur þú vaknað við að hann er að hafa við þig samfarir? en upplifa ekki og/eða skilgreina aðstöðuna ekki sem ofbeldi gegn sér.

Eins merkja einhverjar þeirra við að makinn hafi hrint þeim, slegið, ýtt, haldið fastri, kýlt þær, sparkað í, brennt þær, drekkt, kæft eða bitið. En upplifa það ekki sem ofbeldi af hálfu maka.

Einungis konurnar sem höfðu reynslu af ofbeldi fengu spurninguna: „Kenndi hann þér um ofbeldið? (t.d. „þú gerir mig reiðan“, „ef þú værir ekki alltaf að segja þetta...“) Af 202 konum sem tóku þátt í þessari rannsókn og höfðu reynslu af heimilisofbeldi svöruðu 197 konur þessari spurningu og af þeim sögðu 90,9% að makinn kenndi þeim um ofbeldið en bara 9,1% kenndu konunni ekki um ofbeldið.

Drífa segir að þetta sé í samræmi við erlendar rannsóknir – ofbeldið er þolandanum að kenna. „Sem er athyglisvert. Að það sé sama hvar þú býrð í heiminum, aðstæðurnar, kröfurnar og ranghugmyndirnar eru af mjög svipuðum toga. Konurnar telja sig bera ábyrgð, þær séu ekki nógu góðar, þær séu klikkaðar, þær séu of mjóar/of feitar og smátt og smátt fjara út þeirra áherslur og áhugamál í lífinu og allt fer að snúast um hann – ofbeldismanninn. Alltaf þetta – að þær þurfi að bæta sig,“ segir hún. 

Þú lést mig gera þetta

Afsakanir ofbeldismannanna voru margvíslegar að sögn kvennanna sem höfðu orðið fyrir ofbeldi. Konan var frek, hún gerði hann reiðan, þeir höfðu átt erfiða æsku og stundum var afsökunin fyrir ofbeldinu að konan væri svo leiðinleg. Stundum voru börnin á heimilinu of hávær, eða þeir voru undir miklu álagi. „Þú lést mig gera þetta. Það var þér að kenna. Ég er svo vitlaus og reitti hann til reiði. Allir eru svo vondir við hann. Ég væri erfið og hann þurfti að halda mér til að ég hlustaði. Ég gerði hann reiðan af því hann elskaði mig svo mikið,“ eru meðal svara kvennanna þegar þær eru beðnar um að greina frá ástæðum sem ofbeldismennirnir gáfu upp fyrir því að beita þær ofbeldi.

Fyrrverandi eru „geðveikar“ og ekki mark á þeim takandi eru spurningar sem voru lagðar fyrir báða hópa, það er rannsóknar- og samanburðarhópinn.

Alls kannast 69% svarenda úr rannsóknarhópi við lýsingu maka á að hans fyrrverandi séu „geðveikar og/eða ekkert mark á þeim takandi“. „Merkilegt verður að teljast að gerendur í ofbeldissamböndum virðast eiga miklu meiri reynslu af því að hafa átt fyrrverandi maka sem eru „geðveikar“. Einungis 15% kvenna sem ekki hafa reynslu af heimilisofbeldi kannast við þessa lýsingu makans á hans fyrrverandi, segir í skýrslunni Upplifun og liðan þolenda – persónuleikaeinkenni ofbeldismanna. 

Meira en helmingur kvenna sem hefur reynslu af heimilisofbeldi hefur hlotið áverka eftir maka sinn og 4% kvenna sem ekki hafa reynslu af ofbeldissamböndum. Það er umhugsunarvert að 4% kvenna sem ekki telja sig hafa reynslu af ofbeldissambandi hafa samt sem áður reynslu af því að makinn hafi veitt þeim áverka, segir meðal annars í rannsókninni.

Drífa segir að þessar tölur sýni að mörgum körlum á Íslandi finnst allt í lagi að beita maka sinn ofbeldi. „Ég velti fyrir mér hvað erum við að gera rangt sem uppalendur, af hverju finnst svona mörgum drengjum og körlum svona hegðun í lagi, af hverju „vita konur stundum ekki betur“, halda að sambönd eigi að „vera svona“, af hverju hafa þær ekki skýrari mynd af því hvað eru eðlileg samskipti og hegðun í nánu sambandi?“ spyr Drífa og bætir við að þetta hafi áhrif til langframa. Hringrásin haldi áfram mann fram af manni. „Ofbeldi elur af sér ofbeldi og á hverju ári búa nokkur hundruð börn á Íslandi við heimilisofbeldi. Við þurfum að koma fræðslu inn í skólakerfið þar sem ofbeldi á aldrei rétt á sér. Eins þurfum við að hvetja fólk til þess að greina frá ofbeldinu. Til að mynda kennara, vini, ættingja. Börn segja oft ekki frá því að ofbeldi eigi sér stað á heimilinu því þau elska foreldra sína og vilja ekki að heimilið, þeirra skjól, leysist upp,“ segir Drífa Jónasdóttir.

Skýrslan var gefin út í desember og hægt er að nálgast hana hér

mbl.is