Hanna Katrín: „Geymt en ekki gleymt“

Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar.
Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar. mbl.is/Eggert

Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, er ósátt við afstöðu ríkisstjórnarflokkanna á fundi umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis í morgun.

„Þessi framkoma stjórnarflokkanna og afstaðan sem þeir taka með Miðflokknum í þessu máli er geymd en ekki gleymd,“ sagði hún í samtali við blaðamann að fundi loknum í húsakynnum nefndasviðs Alþingis.

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og nefndarmaður, gerði tillögu um að Hanna Katrín yrði formaður nefndarinnar, en tillagan var felld.

Á fundinum var Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi ráðherra, kjörinn formaður nefndarinnar í stað Bergþórs Ólasonar, þingmanns Miðflokksins, en nefndin var ein þriggja nefnda sem stjórnarandstaðan fékk formennsku í.

„Mér þykir fyrst og fremst miður að verða vitni að því að svo virðist sem stjórnarmeirihlutinn sé að nýta sér uppþot sem verður vegna Klaustursmálsins illræmda til að ganga á bak orða sinna og rjúfa samkomulag við minnihlutann um þrjár nefndarformennskur,“ segir Hanna Katrín. „Þeir tóku á þessum fundi afstöðu með tillögu Miðflokksins og Karls Gauta [Hjaltasonar] sem er utan flokka, gegn tillögu minnihlutans að viðbættri Rósu Björk [Brynjólfsdóttur] sem vildi heiðra samkomulagið,“ segir Hanna Katrín.

Sex kusu með tillögu Bergþórs og þrír á móti. Auk Hönnu og Rósu kaus Helga Vala Helgadóttir gegn tillögu Bergþórs um formennsku Jóns Gunnarssonar.

„Þetta var eitthvað sem við vonuðumst í lengstu lög að yrði ekki að veruleika. En þessi nefnd er svona skipuð núna. Það eru einhver áhöld um hvort um sé að ræða tímabundna kosningu eða ekki, ég náði ekki utan um það á fundinum. Í bókun Bergþórs kemur fram að hann líti á að þetta sé fram í maí en það kemur hvergi fram í tillögunni sem var borin upp,“ segir Hanna Katrín. „Þannig að ég veit ekki hvort þeir eigi eftir að útkljá þessi mál sín á milli, þessi nýi meirihluti, það er Klaustursþingmennirnir og ríkisstjórnarflokkarnir þrír,“ segir hún.

mbl.is

Bloggað um fréttina