Talsverður lægðagangur næstu daga

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands er útlit fyrir talsverðan lægðagang næstu daga. Er spáð hvössu veðri og úrkomusömu á köflum.

Veðurhorfur næsta sólarhringinn gera annars ráð fyrir austlægri átt víða á landinu, 8-13 metrum á sekúndu. Slydda eða snjókoma og síðar rigning verður um landið suðaustanvert, en annars úrkomulítið.

Spáð er allahvassri austlægri átt og rigningu eða slyddu í nótt, en slyddu eða snjókomu norðvestan til. Vindurinn snýst síðan í suðvestanhvassviðri eða -storm á morgun með skúrum og síðar éljum og kólnar þá í veðri.

Jafnvel er búist við roki á norðanverðu Snæfellsnesi um tíma í fyrramálið. Hægari vindur verður hins vegar austan til á landinu og léttir þar til.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert