Notaði dælulykil ítrekað án heimildar

Dómur var kveðinn upp í gær.
Dómur var kveðinn upp í gær. mbl.is/Jón Pétur

Héraðsdómur Norðurlands eystra dæmdi í gær karlmann á þrítugsaldri í 60 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir fjársvik og ítrekuð umferðarlagabrot. Maðurinn sveik út eldsneyti með því að framvísa dælulykli án heimildar.

Fram kemur að maðurinn hafi tólf sinnum á 20 daga tímabili síðasta sumar svikið út eldsneyti á sjálfsafgreiðslustöð Olís á Siglufirði, samtals að verðmæti kr. 86.781 með því að framvísa þar í blekkingarskyni og án heimildar dælulykli í eigu annars manns. 

Auk þess var maðurinn tvívegis tekinn fyrir of hraðan akstur og fyrir að hafa verið með skráða bifreið í sinni eigu án ábyrgðartryggingar. Lögregla fjarlægði númeraplötur af bifreiðinni.

Maðurinn hefur tvisvar áður verið dæmdur í skilorðsbundið fangelsi. Fyrra skilorðið hélt hann en hann rauf seinna skilorðið með brotunum sem hann var dæmdur fyrir í gær. 

Ákærði játaði brot sín fyrir dómi. Hann er eins og áður sagði dæmdur í 60 daga skilorðsbundið fangelsi. Auk þess er honum gert að greiða 215.000 króna sekt í ríkissjóð en 16 daga fangelsi komi í stað sektarinnar verði hún eigi greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins.

Hann þarf að greiða eiganda dælulykilsins 86.781 krónu og þóknun skipaðs verjanda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert