Gagntilboðið óaðgengilegt SA

Halldór Benjamín lítur ekki svo á að skilyrði fyrir aðkomu …
Halldór Benjamín lítur ekki svo á að skilyrði fyrir aðkomu stjórnvalda að kjaradeilunni séu uppfyllt. mbl.is/Kristinn Magnússon

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir gagntilboð Eflingar, VR, VLFA og VLFG óaðgengilegt samtökunum og geti ekki orðið grundvöllur kjarasamnings aðila á milli.

SA fundaði með stéttarfélögunum hjá ríkissáttasemjara nú í hádeginu, en samtökin lögðu fram tilboð um lausn deilunnar á síðasta fundi, sem fram fór á miðvikudag, og lögðu stéttarfélögin fram gagntilboð á fundinum í dag. Því var ekki tekið.

Gagntilboð Eflingar hljóðaði meðal annars upp á að komið yrði til móts við tilboð SA, en með því skilyrði að yfirvöld settu fram og stæðu við skattkerfisbreytingar.

Búist er við útspili stjórnvalda inn í yfirstandandi kjaraviðræður eftir helgi, en Halldór Benjamín Þorbergsson segir að hans skilningur á aðkomu stjórnvalda hafi verið með þeim hætti að forsendan væri sú að stutt væri á milli aðila við úrlausn deilunnar og að þeir kjarasamningar sem hyllti undir væru innan þess þjóðhagslega svigrúms sem atvinnulífið gæti staðið undir í þriggja ára samningi.

„Ég hef túlkað þetta með þeim hætti að sé þessi forsenda ekki uppfyllt, sé ekki um aðkomu stjórnvalda að ræða,“ segir Halldór Benjamín.

Ákveðið hefur verið að boða til nýs fundar í deilunni á fimmtudag í næstu viku. „Þar munu aðilar meta með hvaða hætti þessum viðræðum verður fram haldið.“

Þrátt fyrir hægan gang í kjaraviðræðunum segist Halldór Benjamín halda sig við þá skoðun að aðilar færist nær lausn með hverjum fundi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert