Samninganefnd ASÍ fundar um tillögurnar

Drífa Snædal, forseti ASÍ, kynnir tillögur ríkisstjórnar fyrir samninganefndinni.
Drífa Snædal, forseti ASÍ, kynnir tillögur ríkisstjórnar fyrir samninganefndinni. mbl.is/​Hari

Samninganefnd Alþýðusambands Íslands fundar nú um þær tillögur sem ríkisstjórnin kynnti sambandinu í dag. Fundurinn hófst í höfuðstöðvum ASÍ nú klukkan 15.

Ríkisstjórnin boðaði aðila vinnumarkaðarins á fund sinn í Stjórnarráðinu í dag, en þangað mættu forseti og varaforsetar ASÍ fyrst um klukkan 11 í morgun. Tillögurnar sem ræddar voru á fundum dagsins tengjast meðal annars húsnæðismálum og breytingum á skattkerfi.

Vilhjálmur Birgisson, varaforseti ASÍ og formaður Verkalýðsfélags Akraness, gekk út af fundinum áður en honum lauk og sagði í samtali við mbl.is að tillögurnar væru langt undir væntingum. Drífa Snædal, forseti ASÍ, og Kristján Þórður Snæbjarnarson, varaforseti ASÍ og formaður Rafiðnaðarsambandsins, munu hafa setið fundinn á enda.

Fjármála- og efnahagsráðherra hyggst kynna tillögur að skattabreytingum síðar í dag, en óljóst er hvort tillögur ríkisstjórnarinnar nægi til þess að liðka fyrir kjaraviðræðum. 

Í tilkynningu frá stéttarfélögunum fjórum sem vísað hafa viðræðum sínum til ríkissáttasemjara, VR, Eflingu, VLFA og VLFG segir að vonir um að aðkoma stjórnvalda gæti hleypt glæðum í viðræður þeirra við Samtök atvinnulífsins séu orðnar að engu.

Ragnar Þór Ingólfsson og Vilhjálmur Birgisson á fundi samninganefndar ASÍ.
Ragnar Þór Ingólfsson og Vilhjálmur Birgisson á fundi samninganefndar ASÍ. mbl.is/​Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert