Bræður Jóns Þrastar gestir Crimecall

Umfangsmikil leit hefur staðið yfir að Jóni Þresti sem hvarf …
Umfangsmikil leit hefur staðið yfir að Jóni Þresti sem hvarf fyrir tveimur vikum. Ljósmynd/Írska lögreglan

Davíð Karl og Daníel Örn Wiium, bræður Jóns Þrastar Jónssonar sem er týndur á Írlandi, verða gestir sjónvarpsþáttarins Crimecall sem verður sýndur á írsku sjónvarpsstöðinni RTÉ í kvöld.

„Ég bind miklar vonir við þennan þátt. Hann er með rosalega mikið áhorf og hefur oft skilað góðum árangri þegar kemur að óleystum sakamálum,“ segir Davíð Karl.

Þátturinn sérhæfir sig í reifun sakamála. Farið verður yfir atvik máls Jóns Þrastar og í framhaldinu munu bræður hans biðla til almennings um aðstoð við leitina. Því næst verður sýnd ljósmynd af Jóni Þresti í von um að einhverjir kannist við hann.

Bræðurnir fara á fund írsku lögreglunnar áður en þátturinn verður tekinn upp og er allt saman unnið í samstarfi við hana.

Davíð Karl og Daníel Örn notuðu daginn í dag til að undirbúa sig fyrir þáttinn og skipuleggja næstu daga. „Það er ekkert fararsnið á okkur fyrr en þetta er leyst,“ segir hann en lögreglan er að vinna úr þeim ábendingum sem hafa borist í málinu. 

Stutt er síðan bræðurnir voru gestir eins vinsælasta spjallþáttar Írlands, The Late Late Show, þar sem fjallað var um hvarf Jóns Þrastar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert