Boltinn er hjá Sádi-Arabíu

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ísland leiddi í dag hóp ríkja í gagnrýni á stöðu mannréttindamála í Sádi-Arabíu í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í Genf. Þetta er í fyrsta skipti sem Sádi-Arabía sætir slíkri samstilltri gagnrýni í ráðinu. Harald Aspelund, fastafulltrúi Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna, flutti ávarpið fyrir hönd 36 ríkja.

„Frá því að við tókum sæti í ráðinu vorum við ákveðin í að láta rödd okkar heyrast. Ég hef bent á það sérstaklega að þau ríki sem eru innan ráðsins sem eru kjörin til setu eigi að ganga á undan með góðu fordæmi. Það á í rauninni að gera aukna kröfu til þeirra,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra í samtali við mbl.is.

Í ávarpinu er framganga stjórnvalda í Sádi Arabíu í mannréttindamálum gagnrýnd harðlega, meðal annars að baráttufólk fyrir mannréttindum, eins og auknum réttindum kvenna, sé handtekið og sæti fangelsisvist án dóms og laga.

Löndin fordæma morðið á blaðamanninum Jamal Khashoggi og undirstrika mikilvægi þess að standa vörð um málfrelsi í heiminum, og þá kröfu að fram fari sjálfstæð og óhlutdræg rannsókn á morði Khashoggis. Einnig er krafist að þeir einstaklingar sem hafi verið fangelsaðir án dóms og laga verði látnir lausir þegar í stað. Í yfirlýsingunni eru nokkrir slíkir einstaklingar taldir upp. 

Boltinn hjá stjórnvöldum í Riyadh

„Nú er boltinn hjá stjórnvöldum í Riyadh. Við köllum eftir ákveðnum aðgerðum af hálfu yfirvalda í Sádi-Arabíu meðal annars að ákveðnir einstaklingar verði látnir lausir úr varðhaldi sem sitja þar fyrir engar sakir eins og til dæmis kona fyrir að keyra bílinn sinn. Einnig viljum við óháða rannsókn á morði Khashoggi,“ segir Guðlaugur spurður hver næstu skref séu. Hann bendir á að ef vandamálið sé ekki ávarpað séu litlar líkur á að eitthvað gerist.

„Við erum meðvituð um stöðu okkar í alþjóðasamfélaginu og getum látið rödd okkar heyrast. Þetta gerist ekki að sjálfu sér. Starfsfólkið okkar í Genf leggur mikið á sig í þessum málum sem og öðrum,“ segir Guðlaugur.

Hann tekur fram að gagnrýni á mannréttindabrot í Sádi-Arabíu sé í samræmi við áherslur Íslands í utanríkismálum. Guðlaugur segir mikilvægt að ríkin komi saman, ræði málin á jafnréttisgrundvelli og skiptist á skoðunum í mannréttindaráðinu. 

Alls sitja 47 aðildarríki Sameinuðu þjóðanna í ráðinu. Ísland var kjörið til setu í ráðinu í fyrsta skipti í júlí þegar Bandaríkin sögðu sig úr því en áður hafði Ísland verið virkt sem áheyrnarríki. Ríkin sem skrifuðu undir yfirlýsinguna auk Íslands eru: Austurríki, Ástralía, Belgía, Bretland, Búlgaría, Danmörk, Eistland, Finnland, Frakkland, Grikkland, Holland, Írland, Ítalía, Kanada, Króatía, Kýpur, Lettland, Liechtenstein, Litháen, Lúxemborg, Malta, Mónakó, Noregur, Nýja-Sjáland, Portúgal, Pólland, Rúmenía, Spánn, Svartfjallaland, Slóvakía, Slóvenía, Svíþjóð, Tékkland, Ungverjaland og Þýskaland.

Hér má sjá ræðu fastafulltrúa Íslands í heild sinni.

Sjá einnig vef Stjórnarráðs Íslands.

Haraldur Aspelund, fastafulltrúi Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna, flutti ávarpið …
Haraldur Aspelund, fastafulltrúi Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna, flutti ávarpið fyrir hönd 36 ríkja. Ljósmynd/utanríkisráðuneyti
mbl.is