Krónprinsinn fær friðhelgi í Bandaríkjunum

Mohammed bin Salman.
Mohammed bin Salman. AFP/Rungroj Yongrit

Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa veitt krónprinsi Sádi Arabíu, Mohammed bin Salman, friðhelgi vegna morðsins á blaðamanninum Jamal Khashoggi.

Unnusta hans hefur lögsótt krónprinsinn sem talinn er, meðal annars af leyniþjónustu Bandaríkjanna, hafa fyrirskipað aftökuna í sendiráði Sádi Arabíu í Tyrklandi árið 2018. 

Dómstólar í Bandaríkjunum hafa þó kveðið á um að þar sem Bin Salman sé í raun þjóðhöfðingi og sinni störfum forsætisráðherra, njóti hann friðhelgi. 

Unnusta Khashoggis heitins, Hatice Cengiz, skrifaði færslu á Twitter í tilefni fréttanna í dag með orðunum: „Jamal dó aftur í dag“

Hún, ásamt mannréttindasamtökunum Democracy for the Arab World Now (Dawn), sem að Khashoggi stofnaði á sínum tíma, hafa sem áður segir lögsótt krónprinsinn og reynt að sækja bætur til hans vegna morðsins. 

Í dómsskjölum lögsóknarinnar eru prinsinn og vitorðsmenn hans sagðir hafa rænt, bundið, byrlað ólyfjan, pyntað og að lokum myrt bandaríska ríkisborgarann Jamal Khashoggi.  

mbl.is