Verkfall „alls ekki aðalumfjöllunarefnið“

Frá móttöku Íslandsstofu á Íslenska svæðinu á ferðakaupstefnunni í Berlín. …
Frá móttöku Íslandsstofu á Íslenska svæðinu á ferðakaupstefnunni í Berlín. Sigríður segir þau ekki hafa fengið neinar fyrirspurnir um verkföll. Ljósmynd/Íslandsstofa

Þessa dagana fer fram stærsta ferðakaupstefna heims í Berlín í Þýskalandi. Íslandsstofa hefur yfirumsjón með íslenska básnum þar sem 29 fyrirtæki og 3 markaðsstofur kynna þjónustu sína, en um 120 þúsund fagaðilar í ferðaþjónustu frá öllum heimshornum leggja leið sína á kaupstefnuna, auk 50 þúsund almennra gesta. Þrátt fyrir fréttir um verkföll í ferðaþjónustu og sviptivinda hjá flugfélögum virðist slíkt hafa lítil áhrif og hefur lítið komið upp á íslenska básnum.

Ekkert rætt um verkfallið

Sigríður Ragnarsdóttir, verkefnastjóri Íslandsstofu og tengiliður við markaði í Þýskalandi, Suður-Evrópu og Suður-Ameríku, segir í samtali við mbl.is að ekki einn einasti gestur sem hafi rætt við fulltrúa Íslandsstofu hafi spurt um verkfallið, en í dag hófst verkfall hótelþerna á hótelum á suðvesturhorni landsins. Þá hafa víðtækari verkföll verið boðuð og fer kosning fram um þau þessa dagana.

Sigríður segir einnig að fáir hafi spurt um eða rætt stöðuna á flugmarkaðinum. „Mögulega þeir ferðaheildsalar sem eru með annan fótinn hérna, en þetta er alls ekki aðalumfjöllunarefnið,“ segir Sigríður.

Hún segir fulltrúa ferðaheildsala almennt vera afar jákvæða gagnvart Íslandi á sýningunni og þeir sem viti af þessum málum telji þau minni háttar. „Ég átti alveg von á fyrirspurnum um þessi mál, en það hefur ekki verið,“ segir hún. Í morgun hafði Rúv eftir formanni Fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu að verkfallið væri aðalumræðuefnið á ráðstefnunni, en Sigríður segir að þær fréttir hefðu komið þeim sem væru á íslenska básnum á óvart.

„Við erum dýr staður, en öðruvísi og fólk vill koma hingað“

Spurð um afstöðu ferðaheildsala og fagaðila gagnvart Íslandi og verðlagi hér segir Sigríður að Ísland sé orðin vel þekkt stærð í ferðaþjónustu. „Við erum dýr staður, en öðruvísi og fólk vill koma hingað,“ segir hún og bætir við að þeir sem hingað vilji koma setji það ekki fyrir sig.

Varðandi þróunina í ferðaþjónustu á heimsvísu segir Sigríður að miðað við stemninguna og umræður á kaupstefnunni virðist ferðaþjónustan áfram vera í sókn, en kannski ekki alveg sömu uppsveiflu og hafi verið undanfarin ár sem hafi verið mjög mikil almennt. „Fólk er að horfa fram á jafnan og stöðugan vöxt áfram,“ segir hún.

Vilja kynnast áfangastöðum virkilega vel

Hún segir meðal helstu stefna og strauma í ferðaþjónustunni í dag vera að ferðamenn leiti í auknari mæli að því að kynnast áfangastöðum virkilega vel. Segir hún að fjöldaferðamennskan eigi örlítið undir högg að sækja, þótt sá geiri sé alltaf stór. Hún segir Íslendinga meðal annars hafa horft til matarkynninga í þessum efnum, bæði á sýningunni í ár sem og í tengslum við uppbyggingu heima fyrir á ferðamannastöðum.

Á kaupstefnunni var meðal annars kynning á íslenskum mat.
Á kaupstefnunni var meðal annars kynning á íslenskum mat. Ljósmynd/Íslandsstofa

Áberandi áhugi frá Spáni

Umtalsverð breyting hefur verið á fjölda ferðamanna til Íslands frá einstökum löndum undanfarin ár. Þannig hafa rótgrónir markaðir í Mið-Evrópu og á Norðurlöndunum átt undir högg að sækja meðan Bandaríkjamarkaður hefur sótt í sig veðrið. Það sem af er ári hefur hins vegar verið tilkynnt um talsverða fækkun flugferða til Bandaríkjanna, sérstaklega á vegum WOW air vegna endurskipulagningar þar. Spurð hvort nýir markaðir séu að sýna áhuga segir Sigríður að Spánarmarkaður hafi verið sterkur í fyrra og að það sé áfram áberandi mikill áhugi þaðan og reyndar frá fleiri löndum Suður-Evrópu. Þá segir hún nokkurn áhuga hafa komið frá Suður-Ameríku, meðal annars Argentínu.

Kaupstefnan hófst á miðvikudaginn og eru þrír fyrstu dagarnir aðeins fyrir fagaðila þar sem lögð er áhersla á að þróa áfram og koma á nýjum viðskiptasamböndum við ferðaheildsala. Um helgina er svo opið fyrir almenning, en gert er ráð fyrir um 50 þúsund gestum þá tvo daga til viðbótar við 120 þúsund fagaðila.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert