Ætla sér að slá í gegn

Frá vinstri eru Hrefna Lind Lárusdóttir, Álfrún Helga Örnólfsdóttir, Saga …
Frá vinstri eru Hrefna Lind Lárusdóttir, Álfrún Helga Örnólfsdóttir, Saga Sigurðardóttir og Guðrún Heiður Ísaksdóttir sem skipa hljómsveitina The Post Performance Blues Band hyggst slá í gegn á heimsvísu.

Dömurnar í The Post Performance Blues Band ætla að gefa sér eitt ár til að slá í gegn. Ekki aðeins á Íslandi heldur á heimsvísu. Fyrst er meiningin að koma sér á kortið í London. „Ef fyrirætlunin gengur ekki eftir leggjum við árar í bát og hættum,“ segir Álfrún Helga Örnólfsdóttir, ein fjögurra liðskvenna sveitarinnar, sem hyggst gera heimildarmynd um vegferðina – þessa tilraun okkar til að „meika'ða“ eins og hún segir. Og draga ekkert undan. Ákvörðunin er vel ígrunduð og óhagganleg.

Myndband hljómsveitarinnar The Post Performance Blues Band

Álfrún Helga talar fyrir munn hinna; Sögu Sigurðardóttur, Hrefnu Lindar Lárusdóttur og Guðrúnar Heiðar Ísaksdóttur. Þær hafa spilað saman annað slagið síðastliðin tvö ár, en síðastnefnd er sú eina sem átti sér fortíð í tónlist þegar þær hófu leikinn. Hún var áður bassaleikari í Mammút og er hljóðupptökumanneskja og gjörningalistakona. Álfrún Helga og Hrefna Lind koma úr leiklistinni og Saga Sigurðardóttir er danslistakona.

„Við finnum okkur best í tónlistarsenunni, þótt við séum allar menntaðar í öðrum listgreinum. Í hljómsveitinni getum við notað hugmyndaflugið, gert hvað sem við viljum á sviðinu; leikið, sungið og dansað. Sjálfri finnst mér ekkert svo mikill munur á að leika í söngleik eins og Mary Poppins eða koma fram með hljómsveitinni, þar sem við notum styrkleika okkar, hver með sínum hætti. Það gerist eitthvað ótrúlega fallegt þegar við mætumst sem hljómsveit. Meðfram sinnum við svo annarri listsköpun,“ segir Álfrún Helga í viðtali við Morgunblaðið sem birtist fyrst í gær, þriðjudag. 

Sviðsframkoma er aðalsmerkið

Þær kynntust í meistaranámi í sviðslistadeild í Listaháskóla Íslands fyrir þremur árum og því kemur ekki á óvart þegar Álfrún Helga segir að sviðsframkoma sé aðalsmerki hljómsveitarinnar.

„Við erum frekar villtar á sviði. Sumir myndu efalítið segja að sviðsframkoman væri hysterísk á köflum en við erum samt ekkert að ögra fólki þótt það spyrji stundum „Má þetta?“ Flestum finnst sviðsframkoma okkar bara hressandi.“

Hvers konar sviðsframkoma kallar á þessa spurningu?

„Aðallega hvernig við notum líkamann. Við erum óhræddar við að fylla út í sviðsrýmið með líkömunum, ekki endilega að dansa heldur hreyfa okkur á áhrifaríkan hátt. Við vinnum oft með hið óvænta, brothætta og óreiðukennda og því eru tónleikar okkar stundum á mörkunum að vera leiksýning eða listrænn gjörningur. Stundum með húmorísku ívafi, því fólk má alveg hlæja líka að hinum myrku hliðum lífsins, sem heilla okkur einna mest sem viðfangsefni.“

Hvernig myndirðu lýsa músikinni ykkar?

„Rafpopp, sem við búum til með tölvu, bassa og söng. Eins og nafn hljómsveitarinnar gefur til kynna, vinnum við með blúsinn, en erum þó ekki blúsband í venjulegum skilningi, heldur á sömu tilfinningalegu nótunum. Tilfinningar eins og spennufall eru til dæmis mjög í okkar anda.“

Vonbrigði hversdagslífsins

Nýlega settu The Post Performance Blues Band á netið ábreiðu af smelli Anastaciu, „I'm Outta Love“. Og það verður að segjast eins og er að þar virðist ekki vera sérstaklega létt yfir þeim stöllum. Depurðin næstum drýpur af andlitunum. Engu að síður segir Álfrún Helga að þær spili alla jafna hressilega tónlist og lofar meira fjöri á næsta myndbandi.

„Við viljum nefnilega umbreyta depurðinni í fegurð og gleði, og myrkri í ljós. Þótt þetta fyrsta myndband okkar sé ábreiða, semjum við yfirleitt lögin og textana sjálfar og syngjum oft um okkar persónulegu reynslu. Í einu laginu, „Dysfunctionality“ fjöllum við til dæmis á kraftmikinn og skemmtilegan hátt um skilnað einnar í hópnum sem finnst að allt sé að ganga sér úr greipum. Vonbrigði hversdagslífsins og það að vera manneskja eru viðvarandi stef hjá okkur og getur speglast í sambandsslitum, því að sumarið sé búið eða bara að upp sé runninn mánudagur. Ég held að enginn verði þunglyndur af að koma á tónleika hjá okkur, heldur upplifi þvert á móti von, birtu og gleði.“

Frá því hljómsveitin var stofnuð fyrir tveimur árum hefur hún að sögn Álfrúnar Helgu verið að sækja í sig veðrið í neðanjarðarsenu borgarinnar og lítillega þreifað fyrir sér erlendis. „Við tókum þátt í nútímatónlistarhátíð á Álandseyjum í fyrrasumar og um haustið héldum við tónleika í London á þekktum og rosalega flottum tónleikastað, The Windmill, í London. Kurt Cobain elskaði þennan stað og margar stórar hljómsveitir hófu þar ferilinn. Við keyptum okkur miða til London án þess að eiga nokkurs staðar bókaða tónleika, en gegnum facebook tókst okkur að redda okkur þessum tónleikum,“ segir Álfrún Helga og útskýrir að þeim til bjargar hafi verið maður sem þekkti mann og annan í bransanum þar ytra.

Neðanjarðarsenan og meginstraumarnir

„Við slógum það mikið í gegn að húsráðendur buðu okkur að koma og halda aðra tónleika 21. september næstkomandi. Núna þurfum við að sníða einhverja dagskrá kringum þessa tónleika, kannski getum við plöggað okkur á fleiri tónleika í Evrópu. Við látum að minnsta kosti á það reyna á hvernig umheimurinn tekur okkur.“ Þótt þær segist tilheyra neðanjarðarsenunni hafa þær troðið upp á helstu tónleikastöðum í Reykjavík, til dæmis Húrra, Mengi og Gauk á Stöng. En bara einu sinni á hverjum stað. Það er regla – eða var það. Alveg eins og Álfrún Helga segir það reglu að æfa aldrei lögin áður en þær flytja þau á sviði. Hún telur samt að senn þurfi að brjóta báðar reglurnar – og kannski fleiri sem sveitin hefur sett sér.

„Flest lögin okkar verða til á tónleikum. Við höfum kannski skrifað niður smátexta, einhverja hugmynd að laglínu sem við prófum síðan með áhorfendum. Ef vel tekst til semur Guðrún einhvern takt undir og við prófum einu sinni áður en við spilum það á næstu tónleikum,“ útskýrir Álfrún Helga og víkur talinu að meginstraumum í tónlist, sem The Post Performance Blues Band fylgir augljóslega ekki. Fyrir það fyrsta vegna þess að þær flétti saman ólíkum listformum.

„Við sækjumst ekki eftir að flytja áferðarfallegar, sykraðar poppballöður, heldur leyfum við okkur að fara út fyrir hið venjulega og biðjumst ekki afsökunar þegar við gerum mistök heldur höldum ótrauðar áfram. Mörkin milli meginstrauma og þess sem er á jaðrinum geta verið býsna óljós, en fólk sem sækist eftir óhefðbundinni tónlist veit að við erum ekkert sykurpopp. Listaspírurnar eru ekki eini markhópurinn því við höfum alveg fengið hrós frá húsmóður í Grafarvoginum og gröfukalli úr Vesturbænum, sem hafa labbað inn af götunni á tónleika. Við eigum erindi við fólkið.“

Stórir draumar

Og nú sækist þið eftir sviðsljósinu, hafið þið reynt að komast í sjónvarpið?

„Ég hringdi í Gísla Martein, sem sagði mér að hringja aftur þegar við værum orðnar „mainstream“. Og nú erum við að leita leiða til að auka sýnileika okkar, sem þýðir að við verðum kannski að fylgja meginstraumunum að einhverju leyti. Okkur finnst að utangarðsfólk eins og við ætti líka að fá að komast inn í ljósið. Þótt við séum ekki dæmigerð sveitaballahljómsveit, værum við fínar sem skemmtiatriði eða gjörningur á árshátíðum. Núna erum við að leita að umboðsmanni, sem gæti komið okkur áfram. Þeir virðast ekkert mjög spenntir fyrir okkur, enda vita þeir ábyggilega ekki hvað þeir ættu að gera við okkur.“

Hvað sem öllum umboðsmönnum líður segir Álfrún Helga næstu skref vera að gefa út fleiri lög, spila meira, vera sýnilegri og fá borgað fyrir tónlistarflutninginn. Dömurnar í The Post Performance Blues Band dreymir um frægð og frama og eru ákveðnar í að slá í gegn. Þær ætla að gefa sér mánuð í London og Evrópu. Lengur segir Álfrún Helga að þær geti ekki verið frá börnunum sínum.

Viðtal við Álfrúnu Helgu birtust fyrst í Morgunblaðinu í gær, þriðjudag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert