Ekkert til að kippa sér upp við árið 2019

Óalgengt var að stelpur æfðu knattspyrnu þegar Guðrún var að …
Óalgengt var að stelpur æfðu knattspyrnu þegar Guðrún var að alast upp. AFP

„Það er svolítið sérstakt að fólk sé að kippa sér upp við þetta árið 2019, sérstaklega þar sem  kvennafótboltinn var orðinn sterkur langt á undan karlafótboltanum,“ segir Guðrún Bergsteinsdóttir lögmaður, eini kvenkyns umboðsmaðurinn sem skráður er hjá Knattspyrnusambandi Íslands.

„Ég má varla snúa mér við án þess að mér sé óskað til hamingju. Það kemur mér spánskt fyrir sjónir að fólk skuli veita þessu svona mikla athygli, sem sýnir að fólk hefur mikinn áhuga á KSÍ og fótboltaheiminum.“

Guðrún Bergsteinsdóttir.
Guðrún Bergsteinsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Guðrún kveðst ekki eiga sér neinn feril innan knattspyrnunnar, enda hafi hún alist upp á þeim tíma sem óalgengt var að stelpur æfðu fótbolta. „Ef umhverfið hefði verið annað væri ég kannski þar í dag,“ segir Guðrún.

Hún segist fyrst og fremst vera lögmaður sem fáist við alls kyns samninga og að hagsmunir einstaklinga sem semji við innlend og erlend knattspyrnufélög séu miklir. Lögmenn séu umboðsmenn í sjálfu sér, en að KSÍ geri kröfur um þekkingu á regluverkinu sem að þessu snúi. „Þegar þú ert skráður hjá KSÍ ertu að upplýsa að þú þekkir FIFA-reglurnar og tekst á við auknar skyldur miðað við almenna lögmenn sem þekkja aðeins íslenska regluverkið.“

„Svo er ég foreldri á hliðarlínunni og horfi á þessa æsku sem er að vaxa úr grasi. Það er eins gott að það sé vel hugsað um þessa krakka fari þeir lengra.“

mbl.is