Óljósar upplýsingar og umdeilt útboð

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Ómar Óskarsson

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, óskaði í dag eftir sérstökum fundi í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis til þess að ræða stöðuna á nýjum Herjólfi og dýpkun Landeyjahafnar. Vill hann fá skýrari svör frá Vegagerðinni.

Um helgina var greint frá kröfu frá skipasmíðastöðinni Crist S.A., sem hefur nánast lokið smíði nýs Herjólfs, um viðbótargreiðslur sem ekki eru í samræmi við samninginn um smíðina.

„Við fáum fregnir að skipið sé tilbúið, en svo óljósar upplýsingar af hverju ekki sé hægt að fá skipið afhent. Við vitum ekkert hver upphæðin er sem krafist er og hver rökin fyrir henni eru. Við verðum að fá að vita hvað sé verið að krefja skattgreiðendur um, og af hverju,“ segir Vilhjálmur við mbl.is.

Hann vonast til að Vegagerðin geti gert betri grein fyrir málinu á fundi nefndarinnar.

„Ég býst við því að fá Vegagerðina til þess að upplýsa okkur betur. Hver er fjárhæðin sem krafist er af ríkinu, og fyrir hvað? Þurfum við að búa okkur undir það að borga skaðabætur og fáum við skipið kannski ekki afhent næstu mánuði? Við þurfum að búa okkur undir það.“

Herjólfur siglir inn í Landeyjahöfn.
Herjólfur siglir inn í Landeyjahöfn. mbl.is/Árni Sæberg

Spyr hvort rifta ætti samningi um dýpkun

Hitt málið sem Vilhjálmur spyr um varðar dýpkun Landeyjahafnar. Þar setur hann spurningarmerki við útboðið og hvort kröfurnar sem þar voru settar fram hafi ef til vill ekki verið nógu greinilegar.

„Nú var mjög umdeilt hvernig útboðið um dýpkun Landeyjahafnar var framkvæmt, og hvaða krafa var gerð um afkastagetu. Nú er mars langt kominn og ekki enn búið að opna Landeyjahöfn. Er núverandi verktaki að uppfylla skilmála útboðsins, og voru þá skilmálarnir nógu góðir?“ spyr Vilhjálmur.

Þá veltir hann því fyrir sér hvort búið væri að opna höfnina ef öðrum tilboðum í dýpkun hennar hefði verið tekið. Björg­un ehf. átti lang­lægsta til­boð í dýpk­un í og við Land­eyja­höfn næstu þrjú árin. Til­boð fyr­ir­tæk­is­ins reynd­ist 200 millj­ón­um króna und­ir áætl­un Vega­gerðar­inn­ar um verk­taka­kostnað.

Bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum hafa gagnrýnt það að ekki sé unnið að dýpkun hafnarinnar um hávetur og formaður bæjarráðs heldur því fram að Vegagerðin hafi tekið ákvörðun um að Landeyjahöfn sé ekki heilsárshöfn. Því vísaði Vegagerðin á bug, en Vilhjálmur vill skýrari svör.

„Við þurfum að fá svör hvernig gengur að dýpka höfnina, og hvort blikur séu á lofti að það tefjist líka. Þá vil ég fá svör við því hvort ætti að rifta þeim samningi sem gerður var, eða gera auknar kröfur á verktakann og hvort taka ætti upp dagsektir þangað til búið er að opna höfnina.“

Vilhjálmur segir að umhverfis- og samgöngunefnd hafi tekið vel í beiðni hans um aukafund. Nefndin hafi fastan fundartíma strax í fyrramálið, en hann vonast til þess að aukafundur um þessi mál geti farið fram á fimmtudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert