Segja 14 skýr verkfallsbrot framin

Starfsmenn Eflingar segja að skýr verkfallsbrot hafi verið framin á hótelum síðastliðinn föstudag. Fjórtán tilvik hafi verið skráð niður og af þeim 40 hótelum og hótelkeðjum sem voru til skoðunar hafi Center Hotels og Icelandair-hótelin verið áberandi. Nú er verið að kanna betur hvernig verkföllin gengu fyrir sig hjá rútufyrirtækjunum sem eru fimmtán talsins.

Líklega á þó eftir að skera úr um hvort atvinnurekendur hafi í einhverjum tilvikum verið í rétti þar sem ljóst er að ýmsar útfærslur um viðbrögð atvinnurekenda og yfirmanna við verkföllum eru túlkaðar á ólíkan hátt af deiluaðilum.

Valgerður Árnadóttir, starfsmaður Eflingar, er þess fullviss að í þessum fjórtán tilvikum hafi verið um brot að ræða. 

Þegar yfirmenn hlaða aukavinnu á meðlimi annarra félaga á verkfallsdegi, þá eru þeir að víkja sér undan áhrifum verkfallsins, sem er verkfallsbrot. Þegar meðlimir Matvís þurfa að vinna „hraðar og meira“ á verkfallsdegi, þá er það verkfallsbrot. Þegar meðlimir Eflingar eru færðir úr félaginu rétt áður en verkfallið hefst, og látnir vinna eins og ekkert hafi í skorist, eins og gerðist á Hótel City Park þá er það verkfallsbrot. Þegar kallað er sérstaklega eftir aukavinnu frá starfsfólki utan VR og Eflingar, eins og við sáum hjá Hótel Sögu, þá er það verkfallsbrot.“

Í myndskeiðinu er rætt við Valgerði sem segir að fjölmargir félagsmenn Eflingar hafi boðist til að taka að sér verkfallsvörslu í næstu verkföllum sem eru boðuð í lok vikunnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert