Fékk póstinn of seint

Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna og varaforseti Alþingis.
Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna og varaforseti Alþingis. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Mér barst póstur frá aðstoðarmanni Sigmundar Davíðs kl.18:54 um að birta ekki álitið en sá hann ekki fyrr en of seint,“ segir Steinunn Þóra Árnadóttir, varaforseti Alþingis, í samtali við mbl.is, um birtingu á áliti siðanefndar um Klaustursmálið á vef Alþingis í gærkvöldi. Hún segir að hún hefði viljað geta orðið við bóninni og sér þyki miður að álitið hafi verið birt. 

Þingmenn Miðflokksins hafa gagnrýnt birtinguna harðlega og segja hana ganga gegn stjórnsýslulögum en álitið var birt kl. 19, sex mínútum seinna en Steinunni barst pósturinn þar sem þess var óskað að birtingu álitsins yrði frestað. 

Í áliti nefndarinnar sem Steinunn Þóra og Haraldur Benediktsson, sem bæði gegna hlutverki varaforseta á Alþingi, kölluðu eftir kemur m.a. fram að sam­talið sem átti sér stað á barn­um Klaustri 20. nóv­em­ber milli sex þing­manna, og náðist á upp­töku, geti ekki tal­ist einka­sam­tal. 

mbl.is