Isavia kyrrsetti flugvél WOW

Vél WOW air á flugvellinum í Berlín í gær. Flugið …
Vél WOW air á flugvellinum í Berlín í gær. Flugið frá Berlín var eitt af síðustu flugferðum WOW air. Isavia kyrrsetti síðan vél félagsins á Keflavíkurflugvelli í morgun. mbl.is/HJ

Isavia ákvað að beita stöðvunarheimild á flugvél WOW air sem var staðsett á Keflavíkurflugvelli í morgun eftir að fréttir bárust af því að flugvélar WOW air færu ekki frá Bandaríkjunum í nótt til Íslands. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Isavia.

„Í nótt bárust Isavia fregnir af því að flugvélar WOW air færu ekki frá Bandaríkjunum aftur til Íslands. Í kjölfarið beitti Isavia stöðvunarheimild á grundvelli loftferðalaga á flugvél WOW air, sem staðsett var á Keflavíkurflugvelli, til tryggingar á ógreiddum notendagjöldum.

Isavia harmar það að WOW air hafi hætt rekstri enda hefur félagið flutt fjölmarga farþega um Keflavíkurflugvöll síðastliðin sjö ár og verið mikilvægur hlekkur í velgengni Keflavíkurflugvallar og uppbyggingu ferðaþjónustu á Íslandi.

Það er ljóst að brotthvarf WOW air mun hafa áhrif á rekstur Keflavíkurflugvallar. Isavia mun á næstunni fara yfir hver þau áhrif kunni að verða.

Starfsfólk Isavia á Keflavíkurflugvelli mun aðstoða farþega WOW air eftir bestu getu í dag og næstu daga,“ segir í tilkynningu frá Isavia.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert