Hjálpa fólki sem missti allt í flóðunum

Róbert Þorsteinsson, viðskipta- og hagfræðingur, að störfum.
Róbert Þorsteinsson, viðskipta- og hagfræðingur, að störfum.

„Það sem skiptir öllu máli er að hjálpa fólkinu sem mest þarf á því að halda,“ segir Róbert Þorsteinsson, sem nú starfar fyrir Rauða krossinn á flóðasvæðunum í Malaví. Flóðin fylgdu fellibylnum Idai, sem gekk yfir sunnanverða Afríku fyrr í mánuðinum, og urðu til þess að stór svæði eru umflotin vatni. Hamfarirnar ná til þriggja landa, Mósambík, Malaví og Simbabve, en þau eru með þeim fátækustu í heimi. Íbúar á flóðasvæðinu lifa margir hverjir á sjálfsþurftarbúskap og hafa þúsundir glatað lífsviðurværi sínu.

„Í byrjun var unnið að því að bjarga þeim sem lentu verst í flóðunum en nú er neyðarástandið liðið hjá. Eftir situr að fullt af fólki hefur misst allt sitt og við munum reyna að hjálpa því,“ segir Róbert, sem kom til Malaví í lok síðustu viku.

Kólerusmit þegar greinst

Róbert er viðskipta- og hagfræðingur og hefur verið virkur á Veraldarvakt Rauða krossins í næstum tvo áratugi. Hefur hann starfað á vegum Rauða krossins í Tansaníu, Sómalíu og Bangladess. Hlutverk hans er eftirlit með fjármálum í björgunarstarfinu. „Þetta er rosaleg aðgerð sem er að fara í gang núna,“ segir Róbert í samtali við Morgunblaðið.

Margar fjölskyldur í Malaví misstu heimili sín í ofsaflóðunum.
Margar fjölskyldur í Malaví misstu heimili sín í ofsaflóðunum. Ljósmynd/Róbert Þorsteinsson

Talið er að fórnarlömb fellibylsins og ofsaflóða telji um þrjár milljónir manna á svæðinu öllu. Í Malaví eru fórnarlömbin um 850 þúsund. Róbert segir að 50 manns séu látnir í landinu og óvíst um afdrif margra. Þá er staðhæft að 94 þúsund manns hafi misst heimili sín, en sú tala er umdeild að sögn Róberts. Hann kveðst telja að hún sé lægri. Ljóst er þó að fjölskyldur sem hafa misst allar eigur sínar hafast við í fjöldahjálparstöðvum. „Við einbeitum okkur fyrst og fremst að því að koma til þeirra hjálpargögnum og gera þeim kleift að koma þaki yfir höfuðið. Og gera þeim kleift að halda áfram með lífið,“ segir Róbert.

Hamfarirnar auka líkur á útbreiðslu alvarlegra smitsjúkdóma. Þegar hefur orðið vart við kólerusmit á svæðinu.

Mjög gjöfult starf

Að sögn Róberts hefur Rauði krossinn á Íslandi lengi starfrækt verkefni á þessum svæðum, til dæmis með uppbyggingu á heilsugæslu, öruggu aðgengi að drykkjarvatni og aðgengi að hreinlætis- og salernisaðstöðu.

„Hjálparstarfið mun verða í sex héruðum í Malaví. Við erum alla jafna með tvö til þrjú prógrömm í gangi í þremur héruðum. Tvö þeirra eru stopp vegna þessara hörmunga. Þau eru eiginlega stopp því skjólstæðingar okkar lentu í flóðunum. Við þurfum því að byrja á að hjálpa þeim til að geta haldið áfram með prógrammið,“ segir Róbert.

Hann hefur nú verið í Malaví í viku og upphaflega var stefnt að því að hann myndi starfa þar næstu þrjá mánuðina. „Það er reyndar strax farið að tala um framlengingu og ég verð hér eins lengi og þeir vilja hafa mig. Þetta er það mest gefandi sem ég hef gert, að vinna fyrir Rauða krossinn og taka þátt í hjálparstarfi.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert