Kólerusmitum fjölgar ógnarhratt

Drengur veður í vatni í borginni Beira sem varð hvað …
Drengur veður í vatni í borginni Beira sem varð hvað verst úti í óveðrinu. AFP

Fyrsta dauðsfallið vegna kóleru í kjölfar fellibylsins sem gekk yfir Mósambík hefur nú verið staðfest. Sjúklingurinn lést í hafnarborginni Beira sem varð einna verst úti í óveðrinu. Heilbrigðisyfirvöld segja að þegar hafi yfir 500 manns veikst af kóleru í Beira og hefur fjöldi veikra tvöfaldast á einum sólarhring. 

Fellibylurinn Idai gekk yfir þann 14. mars og olli hann gríðarlegum flóðum í Mósambík. Að minnsta kosti 700 létust í sunnanveðri Afríku. 

Í frétt BBC um málið segir að áhersla sé nú lögð á að hefta útbreiðslu sjúkdómsins og í þessari viku hefst fjöldabólusetning. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) segir að von sé á um 900 þúsund skömmtum af bóluefni gegn kóleru á svæðið.

Yfirvöld óttast að faraldur kóleru breiðist út. Mörg hundruð þúsund manns lentu á vergangi eftir óveðrið og hafa margir leitað sér skjóls í neyðarskýlum, oft tjaldbúðum. Mjög takmarkaður aðgangur er að hreinu drykkjarvatni en mengað vatn er ein helsta útbreiðsluleið kóleru. Víða í sunnanveðri Afríku spillist vatn vegna óveðursins og þá eru þúsundir heimila án rafmagns vegna hans. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert