Einhverjum svíður eftir síðustu samninga

Gylfi Dalmann Aðalsteinsson.
Gylfi Dalmann Aðalsteinsson. mbl.is/Árni Sæberg

Höfrungahlaupið svokallaða er nánast óumflýjanlegt hér á landi að mati Gylfa Dalmanns Aðalsteinssonar, vinnumálasérfræðings og dósents við HÍ. Iðnaðarmenn, BHM og framhaldsskólakennarar eru meðal þeirra sem eru með lausa kjarasamninga og vilja þessir hópar að menntun sé metin til launa.

Ragnar Þór Pétursson, formaður KÍ, sagði til að mynda í gær að lífskjarasamningarnir, sem undirritaðir voru í síðustu viku, væru ekki nægur grundvöllur fyrir nýrri þjóðarsátt. Kjarasamningur framhaldsskólakennara losnaði 31. mars en grunn- og leikskólakennarar eru með lausa samninga í sumar.

Ekki óþekkt staða hér á landi

Gylfi segir að staðan nú sé ekki óþekkt. Hann telur að það færi betur ef heildarsamráð væri á vinnumarkaði, ekki hlutasamráð. Þrátt fyrir að tæplega 100 þúsund manns séu í þeim stéttarfélögum sem skrifuðu undir lífskjarasamninginn í síðustu viku sé allur opinberi vinnumarkaðurinn og iðnaðarmenn eftir.

„Það hefði samt sem áður verið erfitt að koma heildarsamráði að því samningar eru lausir á mismunandi tímum,“ segir Gylfi. Hann bendir þó á að samtal hafi átt sér stað með aðilum vinnumarkaðarins vegna kjarasamninga í heilt ár.

Frá undirritun lífskjarasamninga í síðustu viku.
Frá undirritun lífskjarasamninga í síðustu viku. mbl.is/​Hari

Margir önduðu léttar þegar langri og strangri samningalotu SA við verkalýðsfélögin sem skrifuðu undir kjarasamning í síðustu viku lauk. Spurður hvort hann telji samningaviðræðurnar fram undan jafnvel erfiðari segir Gylfi að erfitt sé að segja til um slíkt en ljóst væri að einhverja hópa sviði enn síðan í síðustu samningum.

„Þar má nefna hjúkrunarfræðinga sem „losna undan gerðardómi“ þar sem þeim var dæmdur kjarasamningur. Þeir koma þá með eitthvað sem þeir telja að hafi vantað,“ segir Gylfi en gerðardómur hjúkrunarfræðinga losnaði 31. mars.

Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM.
Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM. mbl.is/​Hari

Horft til ævilauna

Opinberir starfsmenn tala mikið fyrir því að meta menntun til launa og bendir Gylfi á að í því samhengi sé horft til svokallaðra ævilauna. „Fólk innan BHM er með mikla menntun á bakinu og kemur seint út á vinnumarkaðinn, kannski tíu árum á eftir þeim sem eru ekki langskólagengnir. Það fólk vill meta laun frá byrjun náms og ofan á það bætast námslánin,“ segir Gylfi.

Auk þess sé rætt um starfsumhverfi, mikið álag og kulnun í starfi. „Það sést að sjúkrasjóðir opinberra starfsmanna eru að tæmast og verið er að breyta úthlutunarreglum.“

Að mati Gylfa eru nýgerðir lífskjarasamningar ágætisgrunnur en lengd samningstímans, til 2022, er það besta við hann. „Það er svo mikilvægt fyrir efnahagslegan stöðugleika að hafa svona langan samning til að það sé hægt að skipuleggja sig til lengri tíma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert