Tvö hitamet í hættu fyrir tilviljun

Veðurspá klukkan 14 á morgun, sumardaginn fyrsta.
Veðurspá klukkan 14 á morgun, sumardaginn fyrsta. Ljósmynd/Skjáskot

Ef veðurspár ganga eftir er möguleiki á því að tvö hitamet verði slegin á höfuðborgarsvæðinu á morgun, sumardaginn fyrsta.

Í hugleiðingum veðurfræðings segir að hitinn gæti náð um eða yfir 15 stigum í mörgum landshlutum á morgun, þó síst fyrir austan. Hitametið á sumardaginn fyrsta í Reykjavík er 13,5 gráður frá árinu 1998, og því líklegt að það verði slegið.

Trausti Jónsson veðurfræðingur segir við mbl.is að fyrst og fremst sé það hlý austanátt sem veldur, eins og venjan er þegar hitamet eru slegin í Reykjavík. Rigningu er spáð á höfuðborgarsvæðinu bæði í dag og á föstudag og það er aðeins tilviljun ein sem ræður því að sá góði kafli sem spáð er hitti á sumardaginn fyrsta.

Það er hins vegar ekki aðeins hitamet sumardagsins fyrsta í Reykjavík sem gæti fallið á morgun, því aprílmetið í Reykjavík er 15,2 gráður frá því á stríðsárunum. Aprílmetið á höfuðborgarsvæðinu öllu er svo 15,7 gráður. Trausti segir að þó möguleikinn sé til staðar á því að bæði falli, þá verði að teljast líklegra að met sumardagsins fyrsta verði slegið frekar en hitt.

„Það er líklegra að það verði slegið, ef spár rætast á annað borð og ekki verði farið að rigna strax um miðjan daginn. Þetta er náttúrulega ekkert víst, enda bara spár,“ segir Trausti.

Þrátt fyrir að spáð sé blíðskaparveðri víða á landinu á morgun má þó ekki búast við því að hitametið á Akureyri verði slegið. Það er 19,8 gráður á sumardaginn fyrsta, en aprílmetið er hins vegar 21,5 gráður og mun því að öllum líkindum standa óhaggað.

Aðspurður hvort góða veðrið sem spáð sé á sumardaginn fyrsta geti gefið einhver fyrirheit um það hvernig sumarið gæti orðið segir Trausti það nú ekkert hafa um það að segja. Það sé þó vissulega skemmtileg tilviljun að góða veðrið sem spáð er hitti einmitt á sumardaginn fyrsta.

Trausti Jónsson veðurfræðingur.
Trausti Jónsson veðurfræðingur. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert