Umdeildur skúr á Nesinu rifinn

Skaraskúr lagður að velli fyrir framan Sundlaug Seltjarnarness.
Skaraskúr lagður að velli fyrir framan Sundlaug Seltjarnarness. mbl.is/​Hari

Ríflega 30 ára verslunarsögu á bletti fyrir framan Sundlaug Seltjarnarness lauk fyrir páska þegar bæjaryfirvöld létu fjarlægja söluskála sem þar stóð. Skálinn hafði staðið auður um nokkurt skeið en síðast var hann nýttur sem kosningamiðstöð Viðreisnar fyrir sveitarstjórnarkosningar í fyrra.

Þar áður var verslunin Systrasamlagið rekin þar við miklar vinsældir bæjarbúa og annarra sem sækja sundlaugina og líkamsræktarstöðina. Sú verslun hraktist þaðan vegna þess að ekki reyndist unnt að tryggja framtíðarleigusamning á húsinu. Ástæðan var sú að bæjaryfirvöld áformuðu að nýta svæðið undir bílastæði, að því er fram kemur í umfjöllun um þennan merka skúr í máli og myndum í Morgunblaðinu í dag.

Sundlaug Seltjarnarness var vígð í september 1984. Ekki leið á löngu áður en reistur var söluturn í jaðri lóðar sundlaugarinnar. Þá sem nú þótti mörgum óhugsandi annað en að pylsa eða önnur hressing fylgdi í kjölfar góðrar sundferðar. Sjoppa þessi naut frá upphafi mikilla vinsælda bæjarbúa. Hún fékk nafnið Nesturninn en var í daglegu tali yfirleitt nefnd í höfuð þess sem opnaði hana, Skaraskúr eða einfaldlega Skari.

Í Skaraskúr var í upphafi hægt að kaupa Sinclair Spectrum-tölvuleiki sem nutu mikilla vinsælda. Vertinn tók líka í sína þjónustu nýtt undratæki á markaðinum, örbylgjuofninn. Í honum voru matreiddar heimagerðar samlokur með leynisósu. Svindlsamlokur í samlokubrauði á 25 krónur og Blöffborgarar í hamborgarabrauði á 30 krónur. Þá voru gamaldags íslenskir kleinuhringir, GB-kleinuhringir nánar tiltekið, hitaðir í örbylgjunni og seldir á tíkall.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »