Reglur um keðjuábyrgð ná ekki til Evrópu

Halldór Grönvold segir reglur sem settar voru í fyrra um …
Halldór Grönvold segir reglur sem settar voru í fyrra um keðjuábyrgð ekki ná til EES. Þá segir hann Hollendinga líklega með framsæknari löggjöf en Íslendingar. Styrmir Kári

Lög um keðjuábyrgð sem sett voru á síðasta ári ná ekki til Evrópska efnahagssvæðisins og hefur það því engar afleiðingar fyrir íslenska aðila að hagnast á viðskiptum vitandi að viðhöfð er nauðungarvinna í aðfangakeðjunni.

„Keðjuábyrgðin á eingöngu við það sem gerist á íslenskum markaði,“ segir Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri og deildarstjóri félagsmáladeildar hjá ASÍ, í samtali við mbl.is.

Halldór segir hvert ríki setja sínar eigin reglur um keðjuábyrgð og að hefðbundið sé að slíkar reglur afmarkist við landamæri hvers ríkis. „Það eru til reglur um keðjuábyrgð víða í Evrópu og þessar reglur eru mismunandi frá einu landi til annars, sums staðar eru þær alls ekki til staðar.“

Þrátt fyrir þetta er nú fyrir ríkissaksóknara í Hollandi mál er varðar ábyrgð hollensks umboðsaðila sem á að hafa hagnast á viðskiptum við skipasmíðastöðina Crist SA í Póllandi vitandi að þar voru menn í nauðungarvinnu. Halldór segir málið leiða líkur að því að Hollendingar séu framsæknari en Íslendingar hvað keðjuábyrgð varðar.

Nýr Herjólfur var í smíðum hjá þessari skipasmíðastöð.

Kæran í Hollandi

Norðurkóreskur maður lagði í nóvember fram kæru á hendur hollenskum umboðsaðila til ríkissaksóknara í Hollandi. Í kærunni er krafist rannsóknar á meintu broti vegna keðjuábyrgðar þar sem umboðsaðilinn er sagður hafa hagnast á viðskiptum við pólsku skipasmíðastöðina Crist SA, vitandi að Norður-Kóreubúar væru í nauðungarvinnu hjá fyrirtækinu.

Á umboðsaðilanum að hafa verið skylt að eiga ekki viðskipti við fyrirtæki ef honum var kunnugt um að starfsemin var ekki í samræmi við reglur um réttindi launþega og vinnuvernd á þeim stað þar sem framkvæmd verks fer fram, að því er segir í umfjöllun Reuters.

Ljósmynd/Héraðssaksóknari Amsterdam

Fram kemur í rannsókn sem gerð var við háskólann í Leiden í Hollandi frá 2016, að Vinnumálastofnun Póllands fór í átak gegn nauðungarvinnu árið 2010 og við reglubundið eftirlit hjá skipasmíðastöð Crist SA árið 2013 kom í ljós að 29 einstaklingar frá Norður-Kóreu voru ólöglega við störf hjá fyrirtækinu. Störfuðu þeir þar í gegnum starfsmannaleiguna Armex.

Árið 2014 var á ný gerð úttekt hjá Crist SA í kjölfar þess að starfsmaður frá Norður-Kóreu lést í logsuðuslysi. Komu í ljós fleiri brotalamir í starfsemi fyrirtækisins.

Skortir stefnu

„Þegar maður skoðar keðjuábyrgð, skoðar maður þær reglur sem eru í gildi í því landi þar sem á þetta reynir. Nú erum við komin með keðjuábyrgð hér sem að nær til starfsmannaleiga að fullu leyti, bæði innlendra og erlendra. Einnig til erlendra þjónustufyrirtækja sem hingað koma, einkum í byggingariðnaði og mannvirkjagerð,“ segir Halldór.

„Keðjuábyrgðin nær upp keðjuna að fyrsta íslenska fyrirtækinu sem getur verið verktaki, yfirverktaki eða verkkaupi,“ útskýrir hann. „Það sem gerist í Póllandi og á pólskum vinnumarkaði hefur engar beinar afleiðingar hér.“

Spurður hvort það sé galli í reglunum að þær ná ekki til Evrópska efnahagssvæðisins, segir Halldór það vissulega vera óskandi að svo væri en ASÍ hafi ekki sett neina formlega stefnu um slíkt.

„En náttúrulega hljótum við að gera kröfu til þess að íslensk fyrirtæki og sértaklega opinberir aðilar eigi á alþjóðavísu að sýna af sér samfélagslega ábyrgð og séu einfaldlega ekki að skipta við fyrirtæki sem annaðhvort eru þekkt fyrir eða hafa verið dæmd fyrir brot á starfsmönnum eða það sem teljast ósæmilegir viðskiptahættir,“ bætir hann við.

Ríkiskaup segjast hafa kannað málið

Í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is segist Marieke van der Molen, upplýsingafulltrúi hollenska saksóknaraembættisins, aðeins geta staðfest eðli þess máls sem er til umfjöllunar hjá embættinu. Þá er enn verið að rannsaka málið og engin afstaða tekin til þess hvort ákæra verði lögð fram á hendur umboðsaðilans. Þá getur hún heldur ekkert sagt um á hvaða tíma kærandi á að hafa starfað hjá Crist SA.

Halldór Ó. Sigurðsson, forstjóra Ríkiskaupa, segir í samtali við mbl.is að við undirritun samnings við fyrirtækið Crist SA í janúar 2017 hafi verið farið fram á vottorð og staðfestingu á að starfsemi fyrirtækisins væri í samræmi við pólska vinnulöggjöf, sem fyrirtækið veitti.

Hann segir jafnframt að krafist hafi verið frekari staðfestingar þess efnis í kjölfar umfjöllunar danska ríkisútvarpsins DR um að fólk í nauðungarvinnu hefði komið að smíði varðskips fyrir dönsk stjórnvöld. Crist SA hafi þá sýnt fram á að fyrirtækið væri ekki með starfsfólk frá Armex, enda hefði það félag farið í þrot um mitt ár 2016.

Önnur rannsókn frá háskólanum í Leiden frá árinu 2018 segir að í júní 2016 hafi verkamönnum frá Norður-Kóreu verið sagt að hætta vinnu við hollensk skip hjá Crist SA og skipað í vinnu annars staðar. Virðist sem Armex hafi hætt starfsemi á þeim tíma, en sömu aðilar og voru bak við það fyrirtæki virðast reka fleiri félög sem einnig sinna starfsmannaleigu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert