Ísland leggi áherslu á loftslagsmál

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Nei. Það þekkja allir okkar áherslur, ég er samt ekki að segja að menn muni ekki leita málamiðlana í neinum málum,“ svarar Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra í samtali við mbl.is er hann er spurður hvort Ísland muni veita afslátt af sinni afstöðu til loftslagsmála á meðan landið gegnir formennsku í norðurskautsráðinu.

Fréttir hafa borist af því að forseti Bandaríkjanna hafi viljað fjarlægja tilvísanir til loftslagsmála úr alþjóðlegri yfirlýsingu norðurskautsráðsins.

„Fram til þessa hefur samstarfið gengið mjög vel. Norðurlöndin eru með ríkar áherslur og við vitum að áherslur Trump-stjórnarinnar hafa verið með öðrum hætti,“ segir ráðherrann. „Ég held að á þessu stigi eigi maður ekki að fara að mála skrattann á vegginn, maður verður að sjá hverju fram vindur.“

Ísland tekur við formennsku í ráðinu á þessu ári og mun utanríkisráðherra tilkynna áherslur Íslands á þriðjudag.

Samstaða ráðsins

„Við erum að tala um að loftslagsbreytingar hafi mikil áhrif á norðurskautið og hraðar þar heldur en á mörgum öðrum stöðum. Það er miklu meiri áhersla og áhugi þjóða á norðurskautinu heldur en verið hefur,“ segir ráðherrann og bætir við „Það liggur alveg fyrir að af þeim ástæðum er verkefnið viðamikið og miklar áskoranir fólgnar í þessari formennsku.“

Jafnframt sé samstarfið sérstakt fyrir þær sakir að þrátt fyrir að deilur kunni að vera milli aðildarríkjanna — Norðurlandanna, Bandaríkjanna, Kanada og Rússlands — hafi verið samstaða um það að láta deilumál sem uppi hafa verið í alþjóðamálum ekki trufla starfsemi ráðsins. „Við leggjum áherslu á að svo verði áfram.“

Margar formennskur á árinu

Spurður hvernig land með tiltölulega litla utanríkisþjónustu hyggist takast á við krefjandi verkefni af þessum toga, segir Guðlaugur að meðal annars hafi verið mikið samstarf við aðrar þjóðir, sérstaklega Norðurlöndin, til þess að sinna slíkum verkefnum vel.

„Sú leið sem við höfum farið er að við höfum unnið þetta saman vegna þess að við höfum miklu minni mannafla heldur en gengur og gerist annars staðar og það er rauður þráður í gegnum allar þessar formennskur, eins og til dæmis varðandi málefni hafsins sem við leggjum áherslu á á öllum sviðum, loftslagsmál, grænar lausnir og svo framvegis,“ útskýrir hann.

„Við reynum í þessu, eins og öðru, að nýta þann mannafla sem utanríkisþjónustan hefur eins vel og mögulegt er og gera þetta með hagkvæmum hætti. Við erum ekkert kvíðin við að taka við þessu verkefni, þvert á móti erum við full eftirvæntingar og munum gera okkar besta. En við erum meðvituð um að það er ekki vandalaust að stýra þessu samstarfi sem snýr að norðurskautsmálunum vegna þeirrar stöðu sem er í heiminum.“

Hann bendir á að Ísland mun einnig fara með fleiri embætti á árinu. „Við erum ekki bara með formennsku í norðurskautsráðinu, heldur líka í norræna samstarfinu og Norðurlanda- og Eystrasalts-samstarfinu, einnig í kjördæmi okkar hjá Alþjóðabankanum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina