Blæddi út eftir skot í læri

Bærinn Mehamn í Finnmörku. Rannsókn lögreglu á dauða Gísla Þórs …
Bærinn Mehamn í Finnmörku. Rannsókn lögreglu á dauða Gísla Þórs Þórarinssonar er enn í gangi. Wikimedia Commons/Gunn Nilsen

Íslenska sjómanninum Gísla Þór Þórarinssyni blæddi út eftir að hann fékk skot í lærið. Þetta eru frumniðurstöður krufningar að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni í Finnmörku, en Gísli Þór var skotinn til bana á heimili sínu í þorpinu Mehamn nyrst í Noregi, í lok síðasta mánaðar.

Búið er að tilkynna utanríkisráðuneyti Íslands að krufningu sé lokið og að flytja megi lík Gísla Þórs til Íslands.

Rannsókn málsins er þó ekki lokið, en lögregla hefur til þessa náð að yfirheyra 50 vitni.

Gunnar Jóhann Gunnarsson, sem grunaður er um að hafa skotið Gísla hálfbróður sinn, hefur hins vegar ekki verið yfirheyrður aftur. Gunnar var yfirheyrður í sex tíma síðasta miðvikudag og sagði verjandi hans, Vidar Zahl Arntzen, í samtali við mbl.is eftir yfirheyrsluna að Gunnar væri eyðilagður vegna málsins.

Fengu byssuna daginn sem hann dó

„Rannsókn á vopninu og rafrænum sporum heldur áfram. Hvorugur sakborninganna var skráður eigandi skotvopns. Lögregla hefur á þessum tímapunkti engar áþreifanlegar sannanir fyrir því að þeir hafi orðið sér út um vopnið í einhverjum tilgangi,“ segir í tilkynningu lögreglu. Rannsóknin hafi engu að síður leitt í ljós að vopnið hafi þeir fengið í hendur daginn sem Gísli Þór var myrtur.

Gunnar var dæmdur í gæsluvarðhald til 28. þessa mánaðar og segir lögregla í tilkynningu sinni að farið verði fram á framlengingu þess þegar varðhaldstíminn rennnur út.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert