„Óviðunandi að lögum sé ekki fylgt“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir það óviðunandi að lögum um kynjahlutföll …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir það óviðunandi að lögum um kynjahlutföll í stjórnum fyrirtækja sé ekki fylgt. mbl.is/Hari

„Þetta er náttúrulega ekki ásættanlegt,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við mbl.is um að árið 2018 voru konur 26,2% allra stjórnarmanna fyrirtækja í hlutafélagaskrá og 33,5% í tilfelli fyrirtækja með 50 starfsmenn eða fleiri. Lög kveða á um að hlutfall hvors kyns í stjórnum fyrirtækja skuli ekki vera lægra en 40%.

Spurð hvort það séu vonbrigði að sex árum eftir gildistöku laganna hafi ekki náðst betri árangur, svarar Katrín því játandi.

„Við höfum ekki náð þeim árangri sem við ætluðum að ná með þessari lagasetningu, því ákvæðunum hefur ekki verið fylgt sem er óviðunandi,“ segir hún og bendir á að þó lögin hafi verið samþykkt 2010 var fyrirtækjunum gefinn þriggja ára aðlögunartími og tóku þau ekki gildi fyrr en 2013.

„Þetta er ástæða þess að þingmenn allra flokka eru nú með frumvarp inni á þingi um að setja á viðurlög ef fyrirtæki fylgja þessu ekki og ég verð auðvitað að segja að mér finnst það dapurlegt ef það fari svo að Alþingi þurfi að setja viðurlög við að þessum reglum sé fylgt. Þannig að ég vona nú að atvinnurekendur taki þessum skilaboðum til sín,“ segir forsætisráðherra.

Hefur gefið góða reynslu

Katrín hyggst taka þetta mál upp á næstunni við forsvarsmenn atvinnurekenda. „Auðvitað hljótum við að spyrja okkur af hverju þessi árangur sé ekki raun og veru löngu kominn, það er að segja að fólki finnist það eftirsóknarvert að hafa sem jöfnust hlutföll kynja í stjórnum.“

Þrátt fyrir að lagabreytingin hafi hlotið mikla gagnrýni á sínum tíma þá hafi reynslan verið góð að sögn forsætisráðherra. „Það voru gagnrýnisraddir á þessa löggjöf á sínum tíma frá atvinnulífinu um að þetta væri íþyngjandi kvöð. […] Þó að svona hátt hlutfall fyrirtækja samþykkja ekki ákvæði laganna, þá er það samt svo að þar sem ákvæðunum hefur verið fylgt heyri ég miklar ánægjuraddir. Það er að segja að það hafi verið breyting til bóta – meira að segja frá aðilum sem voru gagnrýnir á málið frá upphafi – fyrir vinnustaðamenningu og ákvarðanatöku.“

„Ég held að allir átti sig á því hvað felast mikil sóknarfæri í því fyrir Ísland að hafa verið í fremstu röð í jafnréttismálum í mörg ár og það felast mörg sóknarfæri í því að gera enn betur, sú staða er ekkert sjálfgefin í alþjóðlegu samhengi,“ bætir Katrín við að lokum.

mbl.is