Joly lögmaður í máli gegn Landsbanka

Eva Joly er lögfræðingur í Frakklandi.
Eva Joly er lögfræðingur í Frakklandi. mbl.is/Árni Sæberg

Eva Joly, fyrrverandi ráðgjafi sérstaks saksóknara, er einn þeirra lögmanna sem aðstoða hóp franskra einstaklinga sem höfðuðu mál gegn stjórnendum Landsbankans í Lúxemborg. Samkvæmt frétt norska blaðsins Klassekampen í dag hófust réttarhöldin 9. maí í París og er áætlað að þau standi í þrjár vikur. Þar kemur fram að fólkið, alls um 100 manns, sem allt voru viðskiptavinir Landsbankans í Lúxemborg, telji að það hafi verið blekkt til þess að taka áhættusöm lán með veði í heimilum þeirra og orlofshúsum. Að stjórnendur bankans hafi vitað af áhættunni en ekki upplýst viðskiptavinina. 

Eva Joly rekur ásamt dóttur sinni, Caroline, lögmannsstofu í Frakklandi og þær eru lögmenn rúmlega 40 þeirra sem taka þátt í málssókninni gegn Landsbankanum. Er áætlað að réttarhöldin standi til 31. maí. 

Lánin áttu að greiða sig upp sjálf

Joly segir í samtali við  blaðamann Klassekampen að Landsbankinn hafi átt í verulegum erfiðleikum á þessum tíma og hafi verið í örvæntingarfullri leit að fjármagni. Landsbankinn í Lúxemborg ráðlagði lántakendum að taka há lán eða álíka og virði eigna þeirra þannig að fasteignir í þeirra væru veðsett upp í rjáfur. Síðan fékk fólkið 25% af láninu greitt út en Landsbankinn fjárfesti það sem eftir stóð í verðbréfum. Þetta átti að skila lántakendum góðri ávöxtun og þeim tjáð að með þessu myndi lánið greiða sig upp. Eva Joly segir í viðtali við Klassekampen að með þessu hafi Landsbankinn náð yfirráðum yfir fasteignum fólksins og greiddi fyrir það aðeins fjórðung af markaðsvirði þeirra. 

Blaðamaður Klassekampen ræðir einnig við einn þeirra sem Joly er að aðstoða, François Vigier, sem er 75 ára gamall. Áður en hann fór á eftirlaun átti hann lítið fyrirtæki sem seldi plastvörur. Í dag er hann talsmaður lántakendanna sem höfðuðu málið á sínum tíma. Stjórnendur Landsbankans voru sýknaðir í málinu árið 2017 en því var áfrýjað.

Sagt að þau hefðu engu að tapa

Vigier segir að hann og kona hans hafi í raun ekki verið sérstaklega að leita eftir fé að láni. Vinur hans hafði hins vegar talað vel um þessi lán Landsbankans og Vigier hafi látið sannfærast. Hann segir í dag að lánið hafi verið gildra og árin eftir gjaldþrot bankans hafi verið stöðug martröð.

„Okkur var sagt að við hefðum engu að tapa,“ segir Vigier sem árið 2006 tók 350 þúsund evrur að láni hjá Landsbankanum í Lúxemborg. Hann endaði með lán upp á 1,7 milljónir evra, 234 milljónir króna. 

Samkvæmt frétt Klassekampen á Vigier að hafa verið orðinn tortrygginn í garð bankans. Skömmu áður en Landsbankinn fór í þrot árið 2008 fjárfesti bankinn fyrir hönd Vigier eignir hans í skuldabréfum bankans og ef hópurinn tapar málinu eiga þau hjónin á hættu að missa íbúð sína í París og eins íbúð fjölskyldunnar á Spáni sem hefur verið í þeirra eigu í margar kynslóðir. En Vigier telur að staða þeirra sé mun betri en margra annarra sem höfðuðu málið gegn Landsbankanum.

Eltu eftirlaunaþega uppi

Einn þeirra segir að starfsmenn bankans hafi elt uppi eftirlaunaþega sem höfðu kannski lítið fé á milli handanna en áttu fasteign. Mjög hafi verið herjað á þá sem bjuggu á frönsku Ríveríunni og ráðgjafar á vegum Landsbankans hafi sætt lagi þegar fólk var að sinna garðyrkju við hús sín á sunnudögum. Þeir sögðu við fólk „en hvað þú átt fallegt heimili. Synd að nýta það ekki betur,“ segir Joly. 

Að sögn Evu Joly er ljóst að bankinn hafi þegar verið kominn í vandræði árið 2006 og í einhverjum tilvikum voru lánin veitt aðeins nokkrum vikum áður en bankinn varð gjaldþrota.

Greinin í heild en blaðið er læst fyrir aðra en áskrifendur

 

mbl.is