Réttað yfir íslenskum bankamönnum í París

Björgólfur Guðmundsson.
Björgólfur Guðmundsson. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Aðalmeðferð í sakamáli gegn Björgólfi Guðmundssyni, fyrrverandi aðaleiganda Landsbankans, Gunnari Thoroddsen, fyrrverandi yfirmanni Landsbankans í Lúxemborg og fimm öðrum einstaklingum sem tengjast meintum blekkingum vegna veðlána sem bankinn veitti hófst fyrir dómstóli í París í Frakklandi í gær. Hélt aðalmeðferðin áfram í dag og er áætlað að hún muni standa í átta daga til viðbótar og enda 24. maí. Samkvæmt því sem komist er næst er þetta í fyrsta skipti sem íslenskir bankamenn eru saksóttir erlendis vegna efnahagsbrota.

Málið hefur þvælst mikið bæði í Frakklandi og Lúxemborg, en saksóknari í Lúxemborg felldi málið niður á sínum tíma meðan saksóknari í Frakklandi ákvað að gefa út ákæru. Í málinu er tekist á um hvort að Landsbankinn í Lúxemborg hafi blekkt viðskiptavini sína sem bankinn veitti einskonar lausafjárlán með veði í fasteignum. Var hugmyndin að viðskiptavinurinn fékk hluta af verðmæti veðsins útgreitt en bankinn fjárfesti fyrir afganginn af veðinu þannig að lánþeginn þyrfti í raun ekki að borga lánið sjálfur til baka.

Þegar fjármálamarkaðir  fóru á hliðina varð niðurstaðan þó oft allt önnur og fjölmargir viðskiptavinir töpuðu miklum fjárhæðum. Í þessu máli er tekist á um hvort að starfsmenn bankans og tveir milliliðir, sem seldu viðskiptavinum lánin, hafi gerst sekir um að blekkja 108 lántaka með því að hafa veitt allt veðið án þess að hafa fengið alla upphæðina greidda sjálfir. Málið hefur fengið nokkra athygli í Frakklandi, sérstaklega þar sem einn þeirra sem telur sig hafa verið blekktan er Enrico Macias, þekktur söngvari í heimalandinu.

Gunn­ar Thorodd­sen, fyrr­ver­andi yf­ir­maður gamla Lands­bank­ans í Lúx­em­borg.
Gunn­ar Thorodd­sen, fyrr­ver­andi yf­ir­maður gamla Lands­bank­ans í Lúx­em­borg.

Árið 2014 var greint frá því að Björgólfur og Gunnar væru meðal grunaðra í málinu og um ári síðar var greint frá því að ákæra hefði verið gefin út.

Þegar greint var frá ákæru málsins árið 2015 kom fram að franski rannsóknardómarinn Renaud van Ruymbeke teldi að Björgólfur hafi haft beina aðkomu að störfum dótturfyrirtækisins Landsbankans í Lúxemborg og að hann hafi verið sá sem hafi átt að hagn­ast mest af veðlána­starf­semi dótt­ur­fé­lags­ins í Lúx­em­borg.Áhættu­fjár­fest­inga­stýr­ing bank­ans hafi verið skipu­lögð og fram­fylgt í fljót­færni og ein­göngu með hags­muni hlut­hafa og stjórn­enda bank­ans í huga.

Eftir að ákæra var gefin út sagði Gunnar í samtali við mbl.is að ákæran hefði komið sér á óvart. „Það er að minnsta kosti ekk­ert sem ég hef séð, eng­ir tölvu­póst­ar, gögn, sam­töl eða neitt slíkt, sem staðfest­ir að eitt­hvað mis­jafnt eða óheiðarlegt hafi átt sér stað,“ sagði Gunn­ar.

Þá hafnaði lögmaður Landsbankans, Bernard Dartevelle, einnig ásökunum í ákærunni. Sagði hann ákæruna ekki byggja á neinum efnislegum sönnunargögnum fyrir utan einn tölvupóst.

mbl.is