Skoða eftirlit með Íslandspósti

Til skoðunar er hjá samgönguráðuneytinu hvort Póst- og fjarskiptastofnun hafi sinnt lögbundnu eftirliti sínu með fjárhagsstöðu Íslandspósts. Fram kemur á fréttavef Ríkisútvarpsins að ekki verði séð að stofnunin hafi kannað hvort fyrirtækið var rekstrarhæft áður en hún veitti því rekstrarleyfi.

Þar segir ennfremur að Póst- og fjarskiptastofnun telji að þær fjárhagsupplýsingar sem stofnunin hafi kallað eftir frá Íslandspósti hafi ekki gefið til kynna slæma stöðu fyrirtækisins. Fjárhagur Íslandspósts hafa verið í miklum ólestri og óskaði fyrirtækið eftir neyðarláni frá íslenska ríkinu fyrir jól.

Þá vill Póst- og fjarskiptastofnun meina það samrýmist ekki hlutverki stofnunarinnar að sinna meira eftirliti með Íslandspósti en öðrum fyrirtækjum á markaði. Vanda Íslandspósts megi rekja til mikilla fjárfestinga á skömmum tíma án þess að fyrir hendi væri næg lánsfjármögnun auk þess sem magn pósts hafi minnkað mun meira en reiknað hafi verið með.

mbl.is