Talaði líka um „candidate country“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bréf, sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra, sendi Jean-Claude Juncker, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, í lok mars 2015 til þess að árétta stefnu ríkisstjórnar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins vegna umsóknar Íslands um inngöngu í sambandið, fól ekki í sér að umsóknin væri dregin til baka.

Bréfinu, sem mbl.is hefur undir höndum og var fengið frá forsætisráðuneytinu, var að sögn Sigmundar Davíðs ætlað að árétta þá stefnu ríkisstjórnarinnar, sem fram kom í öðru bréfi sem Gunnar Bragi Sveinsson, þáverandi utanríkisráðherra, sendi Evrópusambandinu 12. mars 2015, að íslensk stjórnvöld hefði engin áform um að halda áfram viðræðum um inngöngu Íslands í sambandið og fyrir vikið bæri ekki að líta á landið sem umsóknarríki.

Hér má sjá hvernig fyrsti hluti umsóknarferlisins að Evrópusambandinu gengur …
Hér má sjá hvernig fyrsti hluti umsóknarferlisins að Evrópusambandinu gengur fyrir sig þar sem umsókarríki verður fyrst „applicant country“ og síðan „candidate country“ ef umsóknin er samþykkt af ráðherraráði sambandsins. Bæði hugtökin hafa verið þýdd sem umsóknarríki hér á landi en Evrópusambandið gerir hins vegar skýran greinarmun á þeim í ferlinu. Íslensk stjórnvöld lýstu hins vegar einungis yfir við sambandið að Ísland væri ekki lengur „candidate country“.

Fram kemur að sama skapi í bréf Sigmundar Davíðs til Junckers að tilgangur þess sé að árétta það sem fram hafi komið í fyrra bréfi Gunnars Braga. Sigmundur sagði í samtali við Morgunblaðið í byrjun vikunnar að bréf hans hefði verið ritað þar sem gefið hefði verið í skyn að umsóknin væri að einhverju leyti enn virk. Talsmenn Evrópusambandsins höfðu þá lýst því yfir að umsókn Íslands hefði ekki verið formlega dregin til baka.

Líkt og fjallað var um í ítarlegri umfjöllum á mbl.is um helgina um stöðu umsóknarinnar kom fram í bréfi Gunnars Braga að stjórnvöld litu ekki svo á að Ísland væri „candidate country“ sem var þýtt sem umsóknarríki í þýðingu utanríkisráðuneytisins á bréfinu. Sama enska hugtak er notað í umræddu bréfi Sigmundar Davíðs til Junckers.

Ferli Evrópusambandsins þegar ný ríki ganga í sambandið felur í sér að umsóknarríkið (e. applicant country) sendi umsókn sína til ráðherraráðs þess sem. Ráðherraráðið tekur síðan ákvörðun um það byggt á frumathugun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins á umsóknarríkinu hvort skilgreina eigi á umsækjandann (e. applicant) sem „candidate country“ sem einnig hefur verið þýtt umsóknarríki hér á landi sem fyrr segir. Hins vegar gerir sambandið skýran greinarmun á þessum tveimur hugtökum í ferlinu. Umsóknarríki verður þannig fyrst „applicant country“ og síðan „candidate country“ ef umsóknin er samþykkt. Samkvæmt því færðist Íslands aðeins til baka á fyrsta stig ferlisins. Samanber skýringarmyndin hér að ofan sem tekin er upp úr upplýsingabæklingi sambandsins um umsóknarferlið.

Frá því að bréf Sigmundar Davíðs var sent til Junckers og hann fundaði bæði með Juncker og Donald Tusk, forseta leiðtogaráðs Evrópusambandsins, hefur ítrekað komið fram í efni frá sambandinu að umsókn Íslands hafi ekki verið dregin formlega til baka. Þá segir í skýrslu utanríkisráðuneytisins um EES-samninginn, sem kom út í apríl á síðasta ári, að bréf Gunnars Braga hefði aðeins falið í sér að gert hafi verið hlé á umsóknarferlinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert